Samtök ferðaþjónustunnar gera skýlausa kröfu um að áformaðar breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu í fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar verði að fullu dregnar til baka. Samtökin segja að með minni fjárráð muni ferðamenn einungis stoppa styttra og halda sig á suðvesturhorni landsins.
Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um fjármálaætlunina. Samtökin kynntu umsögn sína fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í morgun og á blaðamannafundi í dag. Í könnun sem samtökin lögðu fyrir félagsmenn sína kemur fram að 90% fyrirtækja telja að breytingarnar muni hafa neikvæð áhrif á reksturinn og telja 70% að áhrifin verði mjög neikvæð.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, sagði á blaðamannafundinum í dag að alvarlegar athugasemdir væru gerðar við skort á samráði við greinina. Ráðuneytið hafi ekkert samráð haft við samtökin eða einstaka fyrirtæki. Breytingarnar hafi verið kynntar þeim 60 mínútum áður en þær voru kynntar opinberlega. Þá hafi þeim gefist fjórir dagar til að skila inn umsögnum. Grímur Sæmundsen, formaður SAF, bætti við að stjórnvöld væru með þessu að sýna ferðaþjónustunni mikið virðingar- og skeytingarleysi.
Ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar og Helga ítrekaði á fundinum að greinin væri einstaklingsframtakið í sinni skýrustu mynd þar sem 60% fyrirtækja hafa 10 starfsmenn eða færri. Þá velta 57% fyrirtækja 50 milljónum eða minna á ársgrundvelli.
Með breytingunni verða flestar greinar ferðaþjónustunnar felldar undir efra þrep virðisaukaskatts en þetta tekur gildi 1. júlí á næsta ári. Veitingaþjónusta verður þó áfram í neðra þrepi til samræmis við matvörur. Jafnframt verður gistináttaskattur þrefaldaður og fer úr 100 krónum í 300 krónur.
Samkvæmt þessu aukast VSK-álögur á ferðaþjónustuna sem um nemur 118% hlutfallslegri hækkun. Er þetta aukin skattheimta sem nemur tæpum 20 milljörðum króna. Helga segir þetta algjörlega fordæmalaust og bætti við að áfram væri verið að skoða aðrar gjaldtökuheimildir. Ekki væri verið að horfa á heildarmyndina.
Helga ítrekaði að álögurnar væru langt yfir meðaltali samanburðarþjóða sem er um 11%. Á Íslandi verður virðisaukaskatturinn 24% frá 1. júlí 2018 til 1. janúar 2019 en lækkar þá í 22,5% þegar neðra þrepið lækkar almennt.
„Hvað varðar markmið er þetta óskýrt með öllu. Það er engin sýn,“ sagði Helga.
Ferðaþjónustan skilaði um 70 milljarða króna skatttekjum í fyrra og er áætlað að upphæðin nemi 90 milljörðum á þessu ári. Helga benti á að samhliða breytingunum hefði ekkert verið kynnt um aukið fé til uppbyggingar.
„Ef það er raunin að verið sé að beita þessu verkfæri til að stýra fjölgun ferðamanna eru sérhæfðari tæki mun áhrifaríkari og vænlegri,“ sagði Helga og benti þar að auki á þversögnina í því að á sama tíma væru stjórnvöld í markaðssamstarfi um að fjölga ferðamönnum um allt land og utan háannar. Þá vísaði hún einnig til þess að í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands frá síðasta ári komi fram að færri ferðamann gætu leitt til efnahagslegs samdráttar.
Grímur Sæmundsen sagði fráleitt að halda því fram að ferðaþjónustan ætti að fara borga hærri álögur þar sem hún væri orðin fullvaxta atvinnugrein líkt og ráðherra hefur haldið fram. Sagði hann að bera ætti greinina saman við aðrar útflutningsgreinar í þessu samhengi, líkt og sjávarútveginn sem ekki greiðir útskatt.
„Það eru þrjátíu þúsund manns sem starfa í þessari atvinnugrein og hérna er verið að vega með grófum hætti að rekstrar- og starfsöryggi þeirra,“ sagði Grímur og benti á að afkoma í greininni hefði verið að versna. „Það er ekki samansem merki á milli afkomu í greininni og fjölda ferðamanna.“ Hann sagði lykilatriði að horfa á fjölda gistinótta hjá ferðamönnum sem hafi fækkað milli ára.
Grímur benti á að það hlyti að vera markmið að tryggja samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar á alþjóðagrundvelli og vísaði til þess að Ísland hefði hrapað úr 18. sæti og niður í 25. sæti milli áranna 2015 og 2017 í skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins. Með þessu hafi Ísland farið niður fyrir öll Norðurlöndin nema Finnland. Breytingarnar komi að líkum til með að þrýsta landinu enn neðar að mati SAF.