Afkoma Landsbankans var jákvæð um 7,6 milljarða króna eftir skatta fyrstu þrjá mánuði ársins 2017 en hagnaður bankans á sama tímabili árið 2016 nam 3,3 milljörðum króna. Þá greinir bankinn frá því að eigið fé Landsbankans hafi verið 233,9 milljarðar króna 31. mars og eiginfjárhlutfallið var 27,4%.
„Landsbankinn greiðir á þessu ári 24,8 milljarða króna í arð. Annars vegar er um að ræða 13 milljarða króna arðgreiðslu vegna rekstrarársins 2016 sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins og var hún greidd til hluthafa 29. mars 2017. Hins vegar er um að ræða sérstakan arð til hluthafa, að fjárhæð 11,8 milljarðar króna, sem greiddur verður til hluthafa 20. september 2017,“ segir í tilkynningu á vef Landsbankans.
Enn fremur segir, að hreinar vaxtatekjur hafi verið 8 milljarðar króna og hækkuðu um 7,4% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 2,1 milljarði króna og hækkuðu um 7% frá sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 3,8 milljörðum króna samanborið við 1,8 milljarða króna á sama tímabili 2016 og skýrist hækkunin aðallega af jákvæðum gangvirðisbreytingum á óskráðum hlutabréfum, að því er bankinn segir í tilkynningu.
Fram kemur, að arðsemi eigin fjár á tímabilinu hafi verið 12,5% á ársgrundvelli samanborið við 5% á sama tímabili 2016.
Þá segir, að rekstrartekjur bankans fyrstu þrjá mánuði ársins hafi numið 15,7 milljörðum króna samanborið við 11,5 milljarða króna á sama tímabili árið 2016 og er þetta 36% hækkun á milli tímabila. Rekstrarkostnaður lækkaði um 5,4% miðað við sama tímabil árið 2016 en alls nam rekstrarkostnaður bankans 5,9 milljörðum króna á tímabilinu. Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,4 milljörðum króna sem er lækkun um 2,9% frá sama tímabili árið 2016.
Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,2% á fyrsta ársfjórðungi 2017 en var 1,9% á sama tímabili árið áður.
Útlán Landsbankans jukust um 19 milljarða króna frá áramótum, einkum í formi íbúðalána, þrátt fyrir mikla og vaxandi samkeppni á lánamarkaði. Aukningin endurspeglar bæði aukna markaðshlutdeild Landsbankans og miklar verðhækkanir á fasteignamarkaði, að því er segir í tilkynningu.
Vanskilahlutfall hélt áfram að lækka og var 1,3% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 1,7% á sama tímabili í fyrra.
Kostnaðarhlutfall fyrstu þriggja mánaða ársins var 42,5% samanborið við 55,8% á sama tímabili árið áður.
Lækkunin skýrist bæði af auknum tekjum og lægri rekstrarkostnaði, segir bankinn í tilkynningu.