„Auðlegð og árangur gert þig blindan“

Þorkell Sigurlaugsson og Róbert Guðfinnsson.
Þorkell Sigurlaugsson og Róbert Guðfinnsson. Samett mynd

Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, og Róbert Guðfinnsson, athafnamaður sem fjárfest hefur fyrir milljarða á Siglufirði, áttu í hörðum orðaskiptum á Facebook-síðu Þorkels í gær þar sem hann greindi frá arðgreiðslum Framtakssjóðsins.

Samþykkt var á aðalfundi Framtakssjóðsins fyrir helgi að greiða sjö milljarða króna arð til hluthafa. Stærstu eigendur eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Landsbankinn og Gildi lífeyrissjóður. Framtakssjóður Íslands á sjávárútvegsfyrirtækið Icelandic Group að fullu auk þess að hafa fjárfest í ýmsum fyrirtækjum.

„Það sorglegasta við þetta allt Þorkell Sigurlaugsson er að hagnaður Framtakssjóðsins hefur orðið til með niðurrifi en ekki uppbyggingar til framtíðar fyrir næstu kynslóðir. Vinnubrögð ykkar í málefnum Icelandic Group eru ykkur til skammar. Framtakssjóðurinn er dæmi um þegar fólk fær völd yfir peningum almennings og fer illa með þá,“ skrifar Róbert.

Þorkell svarar þessu og segir: „Þetta er alrangt hjá þér. Það voru allt niðurrif sem gerðust hér fyrir hrun og Framtakssjóðurinn tók við Icelandic og fleiri fyrirtækjum nálægt gjaldþroti. Það var til skammar hvernig búið var að fara með Icelandic. Framtakssjóðurinn reif ekkert niður heldur studdi við fjölda fyrirtækja og gerði þau arðsöm, líka starfsemi Icelandic. Ef þú sérð ekki hverju Framtakssjóðurinn hefur áorkað hefur þín auðlegð og árangur gert þig blindan á árangur annarra en þín sjálfs. Framkoma þín, hroki og viðhorf í þessu máli eru til skammar og dæmi um þá sem hafa ofmetnast. Þú átt að halda áfram að nýta þá peninga sem þú hefur eignast til góðra verka á Siglufirði og víðar, en ekki vera fullur af biturð og öfund út í þann árangur sem aðrir hafa náð.“

„Fyrir þá sem valdaöflin þurftu að koma fyrir“

Þá segir Róbert að Framtakssjóður Íslands sé stofnun fyrir þá sem valdaöflin þurftu að koma fyrir og ekki var hægt að nota annars staðar. „Skömm þeirra sem viðhalda þessari vitleysu er mikil. Það að lífeyrissjóðirnir og ríkið standi að baki þessum óskapnaði er dæmi um að ekki er áhugi fyrir breytingum.“

Ró­bert var meðal annars valinn maður árs­ins í at­vinnu­líf­inu á Íslandi árið 2014 af tímaritinu Frjálsri verslun. Hann hef­ur fjár­fest fyr­ir á fjórða millj­arð í heima­byggð sinni Sigluf­irði í líf­tækni og ferðaþjón­ustu, að mestu fyr­ir eigið fé sem hann hef­ur flutt til lands­ins og er afrakst­ur af er­lendri starf­semi hans í sjáv­ar­út­vegi og fisk­eldi.

Þorkell er einn þeirra er byggðu upp Háskólann í Reykjavík og var framkvæmdastjóri þróunarsviðs skólans um árabil. Hann starfaði lengst af hjá Eimskipum og hefur gegnt stjórnarmennsku í fjölmörgum fyrirtækjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK