„Það er ekki búið að hanna neina þjónustumiðstöð og það er ekki farið að ræða hönnunina. Þarna er bara dreginn upp kassi í æpandi lit,“ segir Anton Kári Halldórsson, byggingar- og skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra, um umræðuna sem verið hefur um þjónustumiðstöðina sem til stendur að byggja við Seljalandsfoss.
Samkvæmt deiliskipulagi stendur til að byggja þjónustumiðstöð sem verður að hámarki 2.000 fermetrar að stærð og sjö metra há á einni til tveimur hæðum við fossinn. Við hana er einnig gert ráð fyrir bílastæðum fyrir 160 bíla.
Nokkrir landeigendur hafa mótmælt þessu og í Facebook-hópnum „Verndum Seljalandsfoss“ var birt myndband er sýnir hvernig miðstöðin gæti skyggt á fossinn.
Ekki hefur verið ákveðið hver muni byggja miðstöðina en það verður að minnsta kosti ekki í höndum sveitarfélagsins að sögn Antons. „Sveitarfélagið og landeigendur eru að vinna að stofnun félags; landeigendafélags fyrir svæðið í heild. Sveitarfélagið mun afsala sér lóðinni í félagið og síðan kemur í ljós hvort það fari sjálft í verkið eða hvort það verði boðið út eða auglýst.“
Þrátt fyrir að sveitarfélagið muni ekki koma að verkinu þarf hönnunin að uppfylla skilmála er fram koma í deiliskipulagi. Þar segir meðal annars að leitast eigi við að draga úr áhrifum vegna lýsingar og glampa frá gleri. Þá eigi efnis- og litaval veggja og þaks að draga sem mest úr sjónrænum áhrifum, sérstaklega frá fossinum séð.
Anton segir lóðina ekki skyggja á fossinn frá útsýnisstöðum á Suðurlandsvegi, helstu aðkomuleiðarinnar, og að það sé helsta ástæða lóðarvalsins. „Eins eru bílastæðin fyrir norðan bygginguna þannig vel falin milli varnargarðs og þessarar byggingar. En eins og réttilega er bent á í umræðunni kemur byggingin til með að sjást vel þegar þú stendur á sumum stöðum,“ segir Anton.
„Við höfum ekki miklar áhyggjur af byggingunni sem slíkri þar sem þú getur yfirleitt fundið hönnun sem passar vel inn í umhverfið. En þegar þú ert að tala um 200 einkabíla og rútur í allra handa litum tekur það pláss og það kannski stingur í augun. Það þarf að huga vel að því og vanda bílastæðið,“ segir hann.
Landeigandi sem gagnrýndi lóðavalið í samtali við RÚV stakk upp á annarri staðsetningu við Brekkuhorn en Anton segir það ekki henta af þessum sökum. „Miðað við þess staðsetningu við Brekkuhorn yrði bílastæðasúpan í forgrunni og það myndi blasa við frá Þjóðvegi 1.“
Anton segir megintilganginn einnig hafa verið að rýmka svæðið og færa álagið frá fossinum. „Núverandi Þórsmerkurvegur verður flattur út og afmáður og við erum að stækka svæðið í heild og dreifa fólki.“ Þá leikur umferðaröryggi einnig stórt hlutverk. „Þessi núverandi gatnamót Þórsmerkurvegar og Þjóðvegar 1 eru hættuleg og mörg slys hafa orðið þarna. Vegagerðin er mjög hlynnt því að færa veginn,“ segir Anton.
Stærð þjónustumiðstöðvarinnar vekur athygli og aðspurður hvað eigi að rúmast innan hennar segir Anton að engar áætlanir hafa verið gerðar og bendir á að þetta sé einungis hámarksbyggingamagn. „Það getur vel verið að það þurfi ekki að byggja nema 500 fermetra ef hér verður bara klósett og veitingaaðstaða.“
Þá bendir hann á að allir bráðabirgðakofar sem nú eru á svæðinu yrðu jafnframt fjarlægðir.