Viljum við raunverulega vinna?

Svala Björvíns á æfingu í Kænugarði.
Svala Björvíns á æfingu í Kænugarði. Ljósmynd/Eurovision.tv

Ef Svala vinnur Eurovision er hár reikningur í verðlaun. Þá yrði loksins komið að Íslendingum að halda keppnina og það gæti kostað um fjóra milljarða króna. Fyrir sama pening væri hægt að borga 777 grunnskólakennurum árslaun eða byggja 143 áttatíu fermetra íbúðir. Eða kaupa 39.231 Iphone 7 síma.

Þetta kemur fram í nýrri  Hagsjá Greiningardeildar Arion banka sem lítur raunsæjum augum á Eurovision.

Líkt og flestum er kunnugt flytur Svala lagið Paper í Kænugarði í kvöld fyrir áhorfendur. Komist hún áfram tekur hún þátt í lokakeppninni á laugardaginn. Áætlað er að keppnin í ár muni kosta Úkraínumenn um 29 milljónir evra, eða tæpa 3,4 milljarða íslenskra króna. Það er talsvert meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og hefur það valdið töluverðum ágreiningi.

Áætlað er að heildarkostnaður Ríkissjónvarpsins viðEurovsion ferlið sé um 90 milljónir króna, en þar af kostar 30 milljónir að taka þátt í sjálfri keppninni. Hins vegar er gert ráð fyrir að þegar öllu sé á botninn hvolft standi þátttakan undir sér, enda skapi miðasala, símakosning og auglýsingar umtalsverðar tekjur.

Áætlað er að heildarkostnaður Ríkissjónvarpsins við Eurovsion ferlið sé um …
Áætlað er að heildarkostnaður Ríkissjónvarpsins við Eurovsion ferlið sé um 90 milljónir króna, en þar af kostar 30 milljónir að taka þátt í sjálfri keppninni mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tapa á sigri

Flest lönd sem hafa unnið Eurovision, og þar af leiðandi haldið keppnina árið eftir, hafa tapað á því peningalega. Svíþjóð er undantekningin, en í fyrra kom keppnin út í hagnaði, sem er sér í lagi óvanalegt.

Í tilfelli Baku og Kaupmannahafnar voru til dæmis byggðar tónleikahallir fyrir keppnina og þar að auki kostar skildinginn að vera gestgjafi. Oftar en ekki duga þær tekjur sem falla til, s.s. frá ferðamönnum er koma fyrir keppnina og eyða í gistingu, afþreyingu, mat og annað, ekki fyrir kostnaðinum og þarf þá einhvern veginn að brúa bilið.

Erfitt er að áætla hver kostnaður Íslendinga yrði ef keppnin yrði haldin hér á landi. Hann gæti þó verið á svipuðu bili og meðalkostnaður síðustu tíu ára, eða rúmir fjórir milljarðar króna. Þá er gert ráð fyrir því að ekki þurfi að ráðast í stórkostlegar framkvæmdir, s.s. að byggja tónleikahöll, heldur verði þeir innviðir sem fyrir eru nýttir.

Hægt væri að reka 51 lið í Pepsi deild karla …
Hægt væri að reka 51 lið í Pepsi deild karla í eitt ár í staðinn fyrir að halda Eurovision. Eggert Jóhannesson

Reka 51 Pepsi-deildar lið

Greiningardeild Arion hefur listað upp nokkur dæmi sem sýna gróflega hvað annað hægt væri að gera við þessa fjóra milljarða í formi skemmtunar, með öðrum orðum fórnarkostnað Eurovision í skemmtanagildi. Þar kennir ýmissa grasa, til að mynda væri hægt að halda 460 jólatónleika, reka 51 lið í Pepsí deild karla í eitt ár eða gefa öllum Íslendingum 7 ABBA Waterloo vínylplötur.

Ef litið er út fyrir ramma lista, menningar og íþrótta er ýmislegt annað sem hægt væri að fjárfesta í. Til að mynda væri hægt að byggja 143 meðalstórar íbúðir, reka Landspítalann í tæpan mánuð, borga rekstrarkostnað í eitt ár fyrir 2.300 grunnskólanemendur eða gefa öllum landsmönnum 12 miða í Hvalfjarðargöngin. Þá væri hægt að kaupa 1.847 nýja Toyota Yaris bíla eða 39.231 iPhone 7 síma.

Fleiri ferðamenn gætu fylgt sigri.
Fleiri ferðamenn gætu fylgt sigri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vöxtur í ferðaþjónustu gæti þó fylgt

Þrátt fyrir gestgjafaþjóðirnar tapi yfirleitt á því að halda keppnina má ekki líta framhjá óbeinu áhrifunum sem keppnin getur haft á hagkerfi þeirra, að sögn Greiningardeildar Arion. Allar borgir sem haldið hafa keppnina hafa upplifað nokkurn vöxt í ferðaþjónustu og efnahag, að minnsta kosti til skamms tíma.

Áhrifin til lengri tíma eru ekki jafn augljós en hafa verður í huga að gríðarlegur fjöldi horfir á keppnina ár hvert, til að mynda horfðu 204 milljónir manns í fyrra, sem eykur sýnileika landsins á alþjóðavísu og gæti aukið ferðaþjónustutengdar tekjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK