Fyrsta skóflustungan að Marriott Edition hótelinu sem mun rísa á Hörpureitnum svokallaða var tekin í dag. Áætlað er að hótelið verði opnað sumarið 2019. Heildarfjárfestingin nemur um 17 milljörðum króna.
Ístak sér um framkvæmdina og á uppsteypu að verða lokið í nóvember 2018. Hótelið verður fimm stjörnu og hið glæsilegasta að allri gerð en þar verða 250 herbergi auk veislu- og fundarsala, fjölda veitingastaða og heilsulind.
BandarískaCarpenter & Company á byggingaréttinn og mun fjármagna framkvæmdina ásamt Eggerti Dagbjartssyni, sem er minnihlutaeigandi íCarpenter. Gerður hefur verið samningur til fimmtíu ára viðMarriott Edition sem mun alfarið sjá um reksturinn.
Líkt og mbl hefur áður fjallað um á hótelævintýrið við Hörpu á sér nokkuð langa sögu, en fyrir hrun var byrjað að skoða mögulega hótelbyggingu á reitnum. Síðan hafa nokkrir mögulegir fjárfestar komið að verkefninu en í apríl árið 2015 var tilkynnt að samningar hefðu náðst við bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Company um byggingaréttinn.
Arion banki hefur komið að ýmsum hliðum verkefnisins er snúa að lánsfjármögnun og átti frumkvæði að aðkomu fjárfesta sem leiða verkefnið. Þeir eru líkt og áður segir Eggert Dagbjartsson og Cartpenter & Co.
Framkvæmdir hafa frestast nokkrum sinnum og áttu fyrst að hefjast haustið 2015 en síðan var lagt upp með árið 2016. Tafðist þetta vegna ýmissa tæknilegra atriða og leyfisveitinga.
Bandaríska fyrirtækið hefur komið að fjölmörgum hótelum í Bandaríkjunum en þetta er fyrsta hótelið erlendis. „Við ætlum að byggja besta hótelið á Íslandi,“ sagði Friedman þegar verkefnið var kynnt í Hörpu árið 2015 og bætti við að byggingarsvæðið við Hörpu væri eitt það allra flottasta í heimi.