Íslendingar standa öðrum þjóðum langt að baki þegar kemur að notkun fjölnota poka. Þó hefur sala þeirra tekið mikinn kipp undanfarin misseri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Pokasjóði um landsátakið „Tökum upp fjölnota“ sem var hleypt af stað í dag.
Áttakið er á vegum Pokasjóðs sem hefur í tvo áratugi haft tekjur af sölu plastpoka, en stefnir nú að því að leggja sjálfan sig niður. Af því tilefni klippti Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, ásamt fulltrúum aðildarverslana Pokasjóðs, á borða úr plastpokum.
„Ef borðinn hefði verið gerður úr þeim fjölda plastpoka sem landsmenn nota á einum degi næði hann frá Reykjavík til Selfoss,“ segir í tilkynningunni en þar segir jafnframt að hver Íslendingur notar að meðaltali 105 plastpoka á ári en stefnt er að því að ná tölunni niður í 90 poka fyrir árslok 2019.
Björt kom til athafnarinnar með sinn eigin fjölnota poka þar sem stóð „Recycle or Die“ sem útleggst sem endurvinnið eða deyið á íslensku. Í tilkynningunni er vitnað í ráðherrann sem sagði skilaboðin skýr – nauðsynlegt væri að fækka plastpokum verulega. Bjarni Finnsson, stjórnarformaður Pokasjóðs, sagði mörgum eflaust þykja það skrýtið að Pokasjóður, sem fær allar tekjur sínar af sölu plastpoka, væri að blása til átaks þar sem fólk væri hvatt til að hætta að nota plastpoka. Það væri þó raunin, markmið Pokasjóðs er að leggja sig niður og stæðu vonir til að það tækist á næstu fimm árum.
Í máli Bjarna kom fram að síðustu misseri hafi dregið verulega úr sölu plastpoka hér á landi, allt upp í 20% í sumum verslunum, en að við stöndum þó mörgum þjóðum langt að baki.
Einn nýr plastpoki er tekinn í notkun á hverri sekúndu á Íslandi sem þýðir að Íslendingar nota um 35 milljónir plastpoka á hverju ári. Hver þeirra er að meðaltali notaður í aðeins 25 mínútur.
Frá upphafi hafa á bilinu 1-1,5 milljarðar plastpoka verið seldir á Íslandi og var fyrsti pokinn framleiddur árið 1968 sem þýðir að hann er að verða 50 ára gamall.
„Fyrsti íslenski plastpokinn á þó enn langt í land með að verða að moldu því það tekur á bilinu 100-500 ár fyrir plastpoka að brotna niður í náttúrunni,“ segir í tilkynningunni.