Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur, sem þýðir að stýrivextir bankans fara úr 5% niður í 4,75%.
Í fréttatilkynningu bankans segir að horfur séu á hröðum hagvexti í ár eins og í fyrra og bæði árin umfram það sem spáð var í febrúar. Frávikið skýrist einkum af meiri vexti ferðaþjónustu en áður var búist við en að auki er útlit fyrir meiri slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár.
Því hafi spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum í heild aukist þrátt fyrir aukinn innflutning vinnuafls og kröftugan framleiðnivöxt. Á móti aukinni spennu vegi hins vegar hækkun gengis krónunnar. „Hún hefur gegnt lykilhlutverki í aðlögun þjóðarbúsins að búhnykkjum sem rekja má til betri viðskiptakjara og vaxtar ferðaþjónustu,“ segir í tilkynningunni.
Skýr merki um aukna spennu í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Raunvextir bankans hafi hækkað lítillega frá síðasta fundi peningastefnunefndar og þá feli gengishækkun krónunnar einnig í sér aukið aðhald.
Hagfræðideild Landsbankans spáði lækkun stýrivaxta og taldi líklegt að peningastefnunefnd myndi lækka stýrivexti um 0,25%. Taldi hagfræðideild bankans að lág verðbólga síðustu ár, stöðugar verðbólguvæntingar nálægt markmiði, veruleg verðhjöðnun verðlags án húsnæðiskostnaðar ásamt lækkun jafnvægisraunstýrivaxta gæfi peningastefnunefndinni fullt tilefni til að fikra sig áfram í lækkun stýrivaxta.
Klukkan 10:00, hófst svo vefútsending þar sem gerð var frekari grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar. Þar munu Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Þórarinn G. Pétursson, framkvæmdastjóri hagfræði og peningastefnu í Seðlabankanum sem einnig situr í peningastefnunefndar, gera grein fyrir rökum peningastefnunefndar fyrir ákvörðun sinni.