„Forsendur kaupanna voru brostnar“

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Karl Steinar Óskarsson, framkvæmdastjóri Birtíngs útgáfufélags ehf., hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Björns Inga Hrafnssonar í hádegisfréttum Rúv varðandi samkomulag um riftun á kaupum Pressunnar ehf. á Birtíngi.

„Af hálfu eigenda og stjórnenda Birtíngs útgáfufélags ehf. skal ítrekað að samkomulag um riftun var undirritað af hálfu allra hlutaðeigandi aðila hinn 10. maí sl. Forsendur kaupanna voru brostnar og Pressan ehf. ekki fær um að standa við skuldbindingar sínar líkt og fram kemur í samkomulaginu. Greiðsla inn á kaupverðið kom á sínum tíma frá 3ja aðila vegna vanefnda Pressunnar ehf.,“ segir í tilkynningunni.

„Í samkomulaginu um riftun felst að sú greiðsla verður gerð upp með samkomulagi við þann aðila. Samkomulag hefur þegar náðst um þá greiðslu og er Pressunni ehf. óviðkomandi eftir undirritun samkomulagsins líkt og þar er staðfest. Í samkomulaginu segir einnig að hvorugur aðilinn skuldi hinum fjármuni eftir undirritun þess. Þá er rétt að undirstrika að Birtíngur ehf. skuldar enga fjármuni til Pressunnar ehf. vegna rekstrar heldur skuldar Pressan ehf. Birtíngi ehf. verulega fjármuni.“

Björn Ingi sagði í samtali við Rúv að kaupum Pressunnar á Birtíngi, sem gefur meðal annars út Vikuna, Hús og híbýli og Nýtt líf, hafi verið rift vegna tafa við endurskipulagningu og hlutafjáraukningu Pressunnar.

„Riftunarbréf er varðveitt hjá óháðum lögmanni og eftir er að ræða hvernig kaupin geta gengið til baka því umtalsverðar greiðslur höfðu farið milli félaganna, m.a. helmingur kaupverðs og rekstrarfé í Birtíngi. Auk þess hefur starfsfólk Pressunnar unnið fyrir Birtíng undanfarnar vikur,“ sagði Björn Ingi í samtali við Rúv.

„Verkefni okkar næstu daga og vikur er að gefa áfram út öfluga fjölmiðla og tryggja rekstur þeirra með aðkomu fleiri aðila. Ábyrgð okkar er mikil enda stór vinnustaður. Við höfum hagrætt umtalsvert í rekstri og vonumst til að vera komin á lygnari sjó innan nokkurra vikna,“ sagði hann.

Hann bætti því því við það að kaupin á Birtíngi gangi til baka lækki heildarskuldir Pressusamstæðunnar um 200 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK