Costco selur lítrann af bensíni á 169,9 krónur

Lítrinn af bensíni kostar 169,9 krónur.
Lítrinn af bensíni kostar 169,9 krónur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Costco hefur hafið sölu á bensíni fyrir utan verslun sína í Kauptúni sem verður opnuð á þriðjudaginn. Þar kostar lítrinn 169,9 krónur, sem er töluvert lægra verð en hjá íslensku olíufélögunum. Samkvæmt síðunni bensinverd.is er lítrinn hjá íslensku olíufélögunum af bensíni ódýrastur hjá sérstökum X-stöðvum Orkunnar eða í 185,7 krónum, sem er 15,8 krónum hærra en hjá Costco. Hjá öðrum stöðum Orkunnar kostar lítrinn 197,8, 197,9 hjá Atlantsolíu og ÓB, 199,4 hjá Skeljungi og 199,9 hjá N1 og Olís.

Vísir sagði fyrst frá að bensínstöð Costco hefði verið opnuð.

Ánægjulegt að fá alvöru samkeppni inn á markaðinn

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), fagnar þessum fréttum. „Það er mjög ánægjulegt að sjá að við séum að fá alvöru samkeppni inn á þennan markað,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.

Hann segir að á Íslandi hafi fengið að ríkja klassískur fákeppnismarkaður í mörg ár. „Verðið hjá Costco styður það sem við höfum verið að benda á og samkeppnisyfirvöld staðfest með mjög ítarlegum samantektum á þessari markaði, að íslenskir neytendur hafa þurft að lifa við 20-30 krónum hærri álagningu á eldsneyti en í nágrannalöndum.“

Runólfur Ólafsson, formaður FÍB.
Runólfur Ólafsson, formaður FÍB. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Býst við mótaðgerðum frá íslensku félögunum

Runólfur segist hafa fulla trú að Costco sé að koma hingað til lands með öðruvísi viðskiptamódel en þekkst hefur og „ekki það viðmið að setja hressilega álagningu á hvern lítra“.

Hann bendir þó á að Costco sé með ákveðinn stofnkostnað, en hver og einn sem vill kaupa bensín hjá Costco þarf að vera meðlimur. Runólfur segist þó bjartsýnn á að markaðurinn muni reyna að aðlagast þessum breytingum.

„Ég geri ráð fyrir því að hin félögin séu að undirbúa einhverjar mótaðgerðir,“ segir Runólfur. Ansi langt sé síðan verðið á bensínlítra fór svona lágt, en samkvæmt greinasafni mbl.is kostaði lítrinn 143 krónur í ársbyrjun 2009.

Runólfur gerir einnig ráð fyrir því að nú muni íslensku olíufélögin reyna að koma með einhverjar skýringar á verðlagningu sinni. „Þetta sýnir okkur að íslensku félögin skulda íslenskum neytendum skýringar. Það er líka athugavert að velta því fyrir sér að það eru lífeyrissjóðirnir sem eru með stærri eigendum stærstu olíufélaganna, þannig að þetta er að mínu mati spurning um siðferðislega ábyrgð.“

Fjölmargir hafa nýtt sér bensínþjónustu Costco í dag.
Fjölmargir hafa nýtt sér bensínþjónustu Costco í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK