„Við lítum þetta mjög jákvæðum augum. Opnunarverðið þeirra er á þeim nótum sem við höfðum ráðgert. Þeir eruð mjög nálægt kostnaðarverði og það er í takt við hvernig þeir hafa gert þetta annars staðar,“ segir Valgeir Baldursson, forstjóri Skeljungs, í samtali við mbl.is, spurður hvernig honum litist á verðið hjá bensínstöð Costco í Kauptúni sem opnaði í gær.
„Þarna eru þeir að nota eldsneytið til þess að koma sér og staðsetningunni á framfæri og trekkja fólk að. Þetta er algjörlega eins og þeir hafa gert þetta annars staðar.“
Skeljungur rekur eldsneytisstöðvar Skeljungs, Orkunnar og Orkunnar X. Ódýrasta verðið er alltaf hjá Orkunni X og stendur það í dag í 185,7 krónum á hvern bensínlítra og 173,10 krónum á hvern dísillítra. „Þar er tæpur 10% verðmunur á Orkunni X og Costco og rétt um 5% á dísil. Ég hef alltaf sagt að við munum ekki frekar en aðrir keppa við Costco í verði. En sem betur fer eru aðrir hlutir sem neytendur og viðskiptavinir líta til. Þar höfum við úr ýmsu að moða eins og staðsetningu, þjónustu og alls kyns fleiri þáttum.“
Valgeir segir að Skeljungur muni ekki keppa við Costco um hvor verði með lægsta verðið. „Þangað ætlum við ekki. Við munum gera okkar besta í okkar verðlagningu eftir hvaða merki við erum með og strekkjum okkur eins mikið og við getum þar eins og alla daga.“
Valgeir getur ekki svarað neinu með hvort von sé á lækkunum hjá Skeljungi á næstu dögum.
„En við fylgjumst bara vel með þessu og skilum okkar besta. Við erum bara með módel sem við höfum verið að keyra á og munum keyra á áfram. Ef umhverfið breytist getur vel verið að við þurfum að breyta því en það eru engar stórkostlegar breytingar í vændum hjá okkur.“