„Ég er bara í sjokki,“ segir Svava Jóhannsdóttir, viðskiptavinur Costco í samtali við mbl.is spurð um hvernig henni lítist á búðina. Hún segir verðið mjög gott.
„Þetta hefði nú mátt koma hingað fyrr,“ segir Svava og sýnir blaðamanni lista af hlutum sem hún ætlar að kaupa í versluninni. „Ég ætlaði sko í Bónus en ákvað að bíða eftir opnuninni. Við erum með þrenn afmæli á næstunni. Núna fer ég að kaupa inn fyrir það.“
Hún segir að hún hafi nú aðeins náð að skoða raftækin og eldhúsvörurnar og segir verðin lægri en hún á að venjast. „En ef við myndum kaupa raftæki væri það helst til gjafa. Við erum orðin svo fullorðin, þurfum ekkert svoleiðis.“
Svava segist ekki sjá eftir því að hafa sótt um aðild að Costco. „Þetta er æðislegt, við erum bara mjög ánægð. Mér leið svolítið eins og ég væri komin til útlanda þegar ég labbaði hérna inn.““