Fiskibarinn færir út kvíarnar

Fiskibarinn er í eigu hjónanna Jónasar Ólafssonar og Sæunnar Örnu …
Fiskibarinn er í eigu hjónanna Jónasar Ólafssonar og Sæunnar Örnu Sævarsdóttur. Aðsend mynd

Fiskibarinn í Vestmannaeyjum hefur nú fært út kvíarnar, flutt í stærra húsnæði og er orðinn fullgildur veitingastaður. Hjónin Sæunn Arna Sævarsdóttir og Jónas Ólafsson stofnuðu Fiskibarinn í júlí 2014 og byrjuðu þá sem fiskbúð en þá hafði ekki verið fiskbúð í Vestmannaeyjum í næstum því tuttugu ár.

„Ég held að það hafi bara enginn treyst sér í þetta fyrr,“ segir Jónas í samtali við mbl.is. „Við ákváðum síðan að kýla á  það, ég er matreiðslumeistari og við höfðum því möguleika á að bjóða upp á fjölda rétta. Við byrjuðum á að selja fisk og franskar og humarsúpu,“ segir Jónas. Ári seinna ákváðu Jónas og Sæunn að taka inn pönnur þar sem fólk velur sér rétti úr borðinu og þeir eru eldaðir á staðnum.

„Það sló í gegn og síðan höfum við bara vaxið,“ útskýrir Jónas en á laugardaginn var nýr og betri Fiskibar opnaður að Skólavegi 1. „Á gamla staðnum vorum við bara með 16 sæti þannig að oft komust færri að en vildu. Í vor bauðst okkur nýtt húsnæði þar sem Kaffi María var áður. Þar eru 50 sæti og iðnaðareldhús þannig að það er mikill munur á. Við slógum til og hófum framkvæmdir um páskana en opnuðum á laugardaginn.“

Við breytingarnar var bætt við fimm störfum á Fiskibarnum en hingað til höfðu hjónin staðið vaktina ásamt þriðja manni á ákveðnum álagstímum. Jónas segir hádegin mjög vinsæl á nýja staðnum en kvöldin líka og er eldhúsið opið til klukkan 22.

Hjónin breyttu einnig matseðlinum og bættu við kjötréttum og bjóða nú upp á nautakjöt, lambakjöt, kjúkling, salöt og fleira. „En við höldum áfram að vera fiskbúð, fremst í staðnum er fiskiborðið og við erum með sautján fiskrétti í borðinu á hverjum einasta degi,“ segir Jónas.

Fiskibarinn er fluttur í nýtt húsnæði við Skólaveg 1 í …
Fiskibarinn er fluttur í nýtt húsnæði við Skólaveg 1 í Vestmannaeyjum. Aðsend mynd
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK