Alls hafa 320 ríkustu fjölskyldur Danmerkur komið 60 milljörðum danskra króna, sem svarar til 910 milljarða íslenskra króna, fyrir í erlendum skattaskjólum.
Fyrst var greint frá þessu í fréttum danska ríkisútvarpsins en fjallað er um þetta í fréttum allra fjölmiðla í Danmörku í dag.
Um er að ræða upplýsingar sem fengust um reikninga danskra milljarðamæringa í HSBC-bankanum í Sviss en um er að ræða hluta af gögnum sem lekið var til fjölmiðla fyrir tveimur árum.
Niels Johannesen, hagfræðiprófessor við Kaupmannahafnarháskóla, segir í samtali við DR að það séu einkum ríkustu fjölskyldur Danmerkur sem hafa falið fé sitt í skattaskjólum en hann hefur unnið að rannsókn á gögnunum ásamt starfssystkinum við háskóla í Noregi og Bandaríkjunum.
Hann segir að rannsóknin leiði í ljós að 320 ríkustu fjölskyldur Danmerkur hafi falið um fjórðung af eignum sínum í skattaskjólum.