Tólf mánaða verðbólga mælist nú 1,7% og lækkar úr 1,9% sem verðbólgan mældist í síðasta mánuði. Hefur hún nú verið undir 2% allt þetta ár og það síðasta, ef undan er skilinn nóvembermánuður þegar tólf mánaða verðbólga fór í 2,1%.
Vísitala neysluverðs hækkaði í maí mánuði um 0,2% frá fyrri mánuði og er nú 443,0 stig. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 387,6 stig og lækkaði um 0,41% frá því í síðasta mánuði.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkar um 2,5% (áhrif á vísitöluna 0,48%) en flugfargjöld til útlanda lækka um 8,6% og hefur það -0,10% áhrif á vísitöluna.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,7% en vísitalan án húsnæðis hefur lækkað um 2,6%.