Fyrirtækið Silicor Materials, sem ætlar að reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga, tilkynnti í dag að hægt yrði verkefnisþróunarvinnu og byggingaráformum verði seinkað. Segir í tilkynningunni að vinna við verksmiðjuna kunni nú að hefjast á síðari hluta næsta árs.
Eru helstu ástæður fyrir seinkuninni sagðar vera tafir á fjármögnun annars áfanga verkefnisins. „Miklar kostnaðarhækkanir á Íslandi hafa einnig haft áhrif. Einvörðungu hluti þeirrar fjármögnunar sem búið var að tryggja, m.a. frá innlendum aðilum, hefur verið nýttur,“ segir í tilkynningunni.
Vilji fyrirtækið með þessu „skapa svigrúm til þess að endurskipuleggja starfsemi fyrirtækisins og áætlanir um uppbyggingu sólarkísilvers. Áfram verður unnið að framgangi verkefnisins á Íslandi, en fyrirtækið mun þó einnig skoða aðrar leiðir.“ Undanfarna mánuði hafi verið kannaðir möguleikar á að byggja verkefnið í áföngum.
„Það eru vonbrigði að Silicor þurfi nú að hægja á undirbúningi verkefnisins og endurskoða útfærslur en aðstæður bjóða ekki upp á annað. Ég er þakklát þeim fjölmörgu aðilum sem sem við höfum unnið með og stutt hafa vel við verkefnið og vonast til að við getum unnið með þeim áfram. Ísland er frábær staðsetning fyrir sólakísilver þar sem til staðar er vel menntað starfsfólk, meginhráefni eru framleidd á landinu og sterk áhersla á sjálfbærni og grænar lausnir. Þá er fríverslunarsamningur við Kína einnig mjög jákvæður. Þrátt fyrir þessa töf erum við enn bjartsýn á að af byggingu verksmiðju á Íslandi geti orðið,“ er haft eftir Terry Jester stjórnarformanni Silicor Materials í tilkynningunni.