Með kaupum á smásölufélögum síðustu vikur eru olíufélögin N1 og Skeljungur að bregðast við breyttu landslagi á markaðinum. Hagar leika síðan sama leik með kaupum sínum á Olís. Sérfræðingur hjá Landsbankanum segir breytingar síðustu vikna ekki koma á óvart.
Í morgun var greint frá kaupum olíufélagsins N1 á Festi sem rekur m.a. Krónuna og Elko. Þá var greint frá því í síðasta mánuði að Skeljungur og Basko, sem rekur m.a. 10-11 og Iceland hafi hafið samningaviðræður um kaup olíufélagsins á öllu hlutafé Basko. Í apríl var síðan undirritaður samningur um kaup smásölufélagsins Haga á Olís.
„Fyrir einhverju síðan, sérstaklega eftir að ljóst var að Costco myndi koma til Íslands, og jafnvel þó að Costco hefði ekki komið, vorum við að sjá að olíufélögin væru í hugleiðingum með að stækka þannig að þessar hreyfingar koma ekki á óvart,“ segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans í samtali við mbl.is.
Bendir hann á að olíufélögin hafi ekki beint tækifæri til vaxtar á olíumarkaðinum en hafi þó góða afkomu og öflugt sjóðstreymi og því sé gott tækifæri fyrir félögin á smásölumarkaðinum. „Það að vera fyrirtæki sem selur bara bensín og sjoppuvörur er orðið barn síns tíma.“
Sveinn segir að kaupin sem tilkynnt voru í morgun séu vissulega stórkaup en samkomulagið sem undirritað var í morgun felur í sér að heildarvirði Festi sé 37,9 milljarðar króna. „Þetta eru stórkaup, N1 er að tvöfalda sig með þessu,“ segir Sveinn og bætir við að ekki megi gleyma hvað allar þessar breytingar síðustu vikur og mánuði þýða fyrir kauphöllina en með kaupunum fer Festi á markað í gegnum N1 og sama má segja um Olís í gegnum Haga og Basko í gegnum Skeljung.
Sveinn segir að með kaupum síðustu vikna sé bensínsala og smásala á Íslandi að verða eitt og að samlegðaráhrifin séu töluverð.
„Við þessi kaup munu fylgja töluvert af fasteignum frá Festi og horfa stjórnendur væntanlega til þess að fækka fermetrum og breyta eitthvað til. Síðan eru Hagar og Skeljungur að leika sama leikinn og baráttan um viðskiptavinina er orðin harðari,“ segir Sveinn.
„Þetta eru viðbrögð við aukinni samkeppni og breyttu landslagi. Ég held að þetta sé ekki endilega beintengt við Costco en það er alveg kominn tími á að smásölumarkaðurinn á Íslandi fari að breytast.“