Allt annað bankaumhverfi en 2008

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segist hafa skipt um skoðun varðandi þörfina …
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segist hafa skipt um skoðun varðandi þörfina á að aðskilja viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi. mbl.is/Ófeigur

Aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi er mögulega ekki eins nauðsynleg og hún hefði verið fyrir hrun að sögn fjármálaráðherra. Hann segir að nú þurfi að skoða ítarlega kosti og galla þessarar blönduðu leiðar en í morgun var kynnt skýrsla starfshóps ráðherra um kosti og galla aðskilnaðar viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi.

 „Það er ekkert leyndarmál að ég var þeirra skoðunar lengi vel að þessi starfsemi færi ekki vel saman undir einu þaki,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is. „En þegar ég sé hversu miklar breytingar hafa orðið á umhverfinu hugsa ég að kannski er þetta ekki eins nauðsynlegt og það hefði verið fyrir hrun.“

Ekki einfalt svar

Benedikt segir þetta án efa hafa verið hitamál allt frá hruni. „En nú er allt annað bankaumhverfi en var árið 2008, ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega. Búið er að setja mikið af nýjum reglum og eftirlitið stórhert. Þá eru eiginfjárkröfur miklu meiri, kröfur til stjórnarfars bankanna og hvernig menn vinna innandyra. Samt sem áður hefur alltaf verið þessi spurning hvernig eigi að gera þetta og hvort það sé eðlilegt að þarna sé tvenns konar starfsemi undir sama þaki,“ segir Benedikt.

Í skýrslunni er farið yfir kosti og galla þess að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi. „Við sjáum það að þetta er ekki alveg einfalt svar,“ segir ráðherrann. „En mér heyrist hjá þingmönnum og stjórnmálaflokkum að það sé samhljómur um að draga úr áhættunni sem mest. Það verður síðan verkefni næsta hóps að koma með tillögur til stjórnvalda um hvernig þessu skal best háttað. Við förum yfir það en endanleg ákvörðun liggur hjá stjórnmálamönnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK