Þarf að taka tillit til þeirra umbóta sem gerðar hafa verið

Í skýrslunni er m.a. bent á að samspil viðskiptabanka- og …
Í skýrslunni er m.a. bent á að samspil viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi í starfsemi alhliða banka sé að ýmsu leyti hagfelld fyrir banka, efnahagskerfið og viðskiptavini þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar að metnir eru kostir og gallar við aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi þarf að taka tillit til þeirra úrbóta sem gerðar hafa verið á starfsumhverfi fjármálafyrirtækja undanfarin ár og að þær séu nægjanlegar til að stemma stigu við þeirri áhættu sem fjárfestingarbankastarfsemi felur í sér.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps fjármálaráðherra um kosti og galla aðskilnaðar viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi.

Að ýmsu leyti hagfelld fyrir banka en getur valdið freistnivanda

Hópnum var falið að skoða erlenda löggjöf um aðskilnað eða takmörkun á viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, leggja mat á kosti og galla slíkrar löggjafar fyrir fjármálamarkað hér á landi og hvort aðrar leiðir séu færar eða betur til þess fallnar að takmarka áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi alhliða banka. Starfshópurinn var skipaður sérfræðingum frá ráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.

Starfshópurinn hefur nú afhent fjármála- og efnahagsráðherra skýrsluna og kynnti formaður hópsins, Leifur Arnkell Skarphéðinsson, lögfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu, hana fyrir blaðamönnum í dag.

Í skýrslunni er m.a. bent á að samspil viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi í starfsemi alhliða banka sé að ýmsu leyti hagfelld fyrir banka, efnahagskerfið og viðskiptavini þeirra. Fjölbreytni í starfsemi getur aukið stöðugleika banka, gert þá hagkvæmari í rekstri og veitir viðskiptavinum fjölþættari þjónustu. Á móti koma rök um að samrekstur geti valdið víxláhættu og freistnivanda. Hömlur á fjárfestingabankastarfsemi í alhliða bönkum geta ýtt undir vöxt skuggabankastarfsemi sem er minna útsett fyrir opinberu eftirliti.

Leifur Arnkell Skarphéðinsson kynnir skýrsluna.
Leifur Arnkell Skarphéðinsson kynnir skýrsluna. mbl.is/Ófeigur

Umfang fjárfestingarbankastarfsemi að meðaltali 5%

Þar sem engin einhlít skilgreining er til á fjárfestingarbankastarfsemi er engin algild aðferð til við mat á umfangi hennar. Í skýrslunni eru nokkrar aðferðir notaðar til þess að áætla umfang fjárfestingarbankastarfsemi viðskiptabankanna hér á landi. Samkvæmt þeirri nálgun sem beitt er í skýrslunni er umfang fjárfestingabankastarfsemi að meðaltali um 5% af eignum en þá er horft fram hjá skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs. Hlutfallið reiknað af tekjum er nokkuð hærra að meðaltali, eða um 13% ef miðað er við síðasta ár.

Í skýrslunni er fjallað um þá grundvallarspurningu hvort þörf sé á frekari kerfisbreytingum hér á landi, einkum hvort í því felist ábati umfram kostnað að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi fjármálafyrirtækja hér á landi. Þrjár meginleiðir eru skoðaðar sem gætu komið til greina í þessum efnum.

  1. Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi byggi á þeim kerfisumbótum sem nú þegar hafa átt sér stað eftir fjármálahrunið 2008 eða eru nú þegar í þróun.
  2. Kerfisbreyting sem felur í sér að viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi verði aðskilin (bannregla) í samræmi við erlendar fyrirmyndir.
  3. Fjárfestingarbankastarfsemi innan alhliða banka áfram heimiluð, að því gefnu að hún verði innan skilgreindra hlutfalla og að áhættu sem af henni stafar verði mætt með fullnægjandi hætti.

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því á blaðamannafundinum í dag að næsta skref væri að skipa hóp sérfræðinga til þess að vinna úr niðurstöðum skýrslunnar og leggja fram tillögur um niðurstöður fyrir 1. nóvember. Ráðherra mun biðja fulltrúa minnihluta flokkanna að skipa tvo sérfræðinga og hann skipar þrjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK