Bensínstöð Costco starfar við hámarksgetu og myndi njóta góðs af fjórum dæluslöngum til viðbótar til að bæta umferðarflæði um svæðið. Þetta kemur fram í bréfi lögfræðings Costco til byggingafulltrúa Garðabæjar þar sem óskað er eftir leyfi til þess að stækka bensínstöðina sem stendur við verslun Costco í Kauptúni.
Verslunin óskar eftir leyfi til þess að stækka stöðina um fjórar dæluslöngur en samkvæmt deiluskipulagi Kauptúns frá 15. apríl 2016 er heimild fyrir alls sextán dæluslöngum en í dag eru þær tólf.
Þá er þess óskað að afgreiðslu erindisins verði flýtt eins og kostur er.
Bensínstöð Costco var opnuð tveimur dögum áður en verslunin sjálf opnaði 23. maí síðastliðinn. Þá kostaði lítrinn af bensíni 169,9 krónur sem er töluvert ódýrara en hjá íslensku olíufélögunum. Lítrinn var síðan lækkaður 12. júní og kostar nú lítri af bensíni 166,9 krónur og lítrinn af dísel 158,9 krónur.