Krónan hefur veikst um rúm 4% gagnvart evru

Daníel segir að veiking krónunnar kunni að stafa af viðbrögðum …
Daníel segir að veiking krónunnar kunni að stafa af viðbrögðum fólks við neikvæðum fréttum af ferðaþjónustu í fjölmiðlum. Mynd úr safni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Síðustu 30 daga hefur krónan veikst um rúmlega 4% gagnvart evru og 4,5% gagnvart Bandaríkjadal. Þá hefur gengisvísitalan hækkað um 6,5% frá 9. júní. Forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans segir þetta talsvert miklar sveiflur en alls ekki óeðlilegar.

„Það er ekkert sérstakt í hagtölunum sem við sjáum að sé að valda þessu í sjálfu sér,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, í samtali við mbl.is. Bendir hann á að krónan hefur átt það til að styrkjast um 1,5% til 2% á dag og því er samsvarandi veiking ekki óeðlileg.

Helstu tíðindi síðustu vikna séu lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands um 0,25 prósentustig og hækkun stýrivaxta í Bandaríkjunum um sömu tölu. Þetta hefur dregið aðeins úr vaxtamuninum við útlönd en það erfitt að segja til um hvort þetta sé það sem er að hafa áhrif á gengi krónunnar síðustu daga.

mbl

Möguleg viðbrögð við neikvæðum fréttum af ferðaþjónustu

Hann segir að það séu ekki neinir augljósir hagvísar hér innanlands sem líklegir séu til að hafa leitt af sér þessa veikingu krónunnar. Þvert á móti nær gjaldeyrisinnstreymið inn í landið hámarki nú yfir sumarmánuðina þegar mest er að gera í ferðaþjónustunni sem ætti frekar að ýta undir styrkingu krónunnar en öfugt. Daníel bætir þó við að gjaldeyrismarkaðurinn eigi það til að sveiflast töluvert þegar tiltölulega litlar breytingar verða á inn- og útstreymi á gjaldeyrismarkaðinn.

„En það kann að vera að þetta séu viðbrögð við neikvæðum fréttum af ferðaþjónustu í fjölmiðlum sem væri í sjálfu sér svolítið skrýtið því það er ekki eins og það sé að mælast samdráttur í ferðaþjónustunni heldur er að hægjast á aukningunni. Þetta gætu verið tímabundin viðbrögð fólks sem heldur kannski að styrkingunni sé að ljúka og vilja tryggja sér gjaldeyri á ákveðnum kjörum,“ segir Daníel.

Á svipuðum slóðum og í apríl

Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlunum er nú á svipuðum slóðum og í lok apríl en Daníel bendir á að frá áramótum hafi hún styrkst um tæp 7% gagnvart Bandaríkjadal, 2% gagnvart evru og 5% gagnvart pundinu. Í dag er gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal 104,7 krónur, evru 116,91 krónur og pundi 132,66 krónur. 

„Krónan er töluvert sterkari en hún var í upphafi árs en síðasta mánuðinn hefur hún gefið aðeins eftir“ segir Daníel. „Þróunin er þó ekkert óeðlileg miðað við það sem gengur og gerist á gjaldeyrismarkaði almennt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK