Gísli J.Friðjónsson, fyrrverandi eigandi og forstjóri Hópbíla, greiðir hæst opinber gjöld allra hér á landi, eða 570.452.598 krónur, samkvæmt lista Ríkisskattstjóra yfir álagningu einstaklinga fyrir árið 2016. Gísli seldi framtakssjóðnum Horn III fyrirtæki sitt á síðasta ári.
Næstur á eftir honum er Einar Friðrik Sigurðsson skipstjóri, sem greiðir 383.896.974 krónur, en hann seldi Skinney Þinganes fyrirtæki sitt Auðbjörgu hf. á síðasta ári.
Í þriðja sæti er Katrín Þorvaldsdóttir, erfingi fyrirtækisins Síld og fiskur, sem greiðir 362.695.100 krónur í opinber gjöld. Neðar í fréttinni má sjá lista yfir þá 20 einstaklinga sem greiða hæst opinber gjöld hér á landi.
Framteljendur á skattgrunnskrá hafa aldrei verið fleiri en nú og eru 286.728. Það eru 9.122 fleiri en fyrir ári sem er fjölgun um 3,3%. Framteljendum á grunnskrá hefur ekki fjölgað jafnmikið á einu ári síðan árið 2007 en þá fjölgaði um 10.855.
Við álagningu nú voru skattstofnar 13.125 einstaklinga áætlaðir en það er um 4,58% af heildarfjölda. Nokkur hluti skýrist af framtölum sem ríkisskattstjóri útbýr fyrir framteljendur vegna sérstakra aðstæðna en slík framtöl hafa sömu réttaráhrif og þegar skattstofnar eru áætlaðir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisskattstjóra, en álagningarseðlar urðu aðgengilegir á þriðjudag.
Á morgun, hinn 30. júní, munu inneignir verða lagðar inn á bankareikninga þeirra framteljenda sem eiga inni hjá ríkissjóði eftir álagningu. Þeir framteljendur sem ekki hafa bankareikning geta vitjað inneigna hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra.
Fram kemur í tilkynningunni að tekjuskattur og útsvar hafi að mestu þegar verið innheimt í staðgreiðslu en í álagningunni fer fram endanlegt uppgjör þessara skatta auk þess sem lagt er á útvarpsgjald, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa, auk tryggingagjalds sem lagt er á einstaklinga með rekstur í eigin nafni. Þá eru einnig reiknaðar barnabætur og vaxtabætur.
Ríkisskattstjóri hefur í gegnum tíðina leitast við að bæta þjónustu við viðskiptavini sína. Nú er orðið mun auðveldara fyrir flesta að telja fram til skatts þar framtöl eru að mestu leyti fyrirfram unnin af ríkisskattstjóra með áritun upplýsinga inn á framtöl. Er framtalsgerð margra á síðustu árum einkum fólgin í yfirlestur og staðfestingu að upplýsingar séu réttar. Þá fara samskipti við framteljendur að miklu leyti fram í gegnum vefsíðu ríkisskattstjóra. Betri skil gagna og aðstoð við framteljendur hafa fækkað villum og einfaldað framtalsgerð hjá mörgum. Hefðbundin pappírsframtöl heyra nánast sögunni til en nú skiluðu 99,6% framteljenda rafrænu skattframtali.
Í samræmi við 98. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt mun álagningarskrá liggja frammi á starfsstöðvum ríkisskattstjóra um allt land næstu tvær vikur eða til 14. júlí nk. Kærufrestur rennur út 31. ágúst nk.
Gísli J Friðjónsson, Kópavogi 570.452.598 kr.
Einar Friðrik Sigurðsson, Ölfusi 383.896.974 kr.
Katrín Þorvaldsdóttir, Reykjavík 362.695.100 kr.
Guðmundur Kristjánsson, Seltjarnarnesi 231.625.960 kr.
Ármann Einarsson, Ölfusi 159.112.908 kr.
Marta Árnadóttir, Reykjavík 149.020.216 kr.
Grímur Alfreð Garðarsson, Reykjavík 148.923.231 kr.
Kristján V Vilhelmsson, Akureyri 143.377.822 kr.
Guðrún Birna Leifsdóttir, Vestmannaeyjum 139.515.059 kr.
Valur Ragnarsson. Reykjavík 135.389.186 kr.
Brynjólfur Gunnar Halldórsson, Seltjarnarnesi 127.831.300 kr.
Ársæll Hafsteinsson, Flóahreppi 126.891.787 kr.
Kristinn Már Gunnarsson, Reykjavík 120.233.253 kr.
Jón Sigurðsson, Garðabæ 116.740.909 kr.
Ari Fenger, Garðabæ 115.030.402 kr.
Benedikt Rúnar Steingrímsson, Dalabyggð 112.971.635 kr.
Magnús Jóhannsson, Hafnarfirði 110.108.149 kr.
Vilhelm Róbert Wessman, Reykjavík 107.513.728 kr.
Kristín Fenger Vermundsdóttir, Reykjavík 107.373.232 kr.
Árni Pétur Jónsson, Reykjavík 99.246.014 kr.