Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s staðfesti A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands fyrir langtíma- og skammtímaskuldir í erlendum og innlendum gjaldmiðlum í dag.
Í skýrslu matsfyrirtækisins eru færð rök fyrir ákvörðuninni. Þar segir að stöðugar horfur endurspegli þá skoðun matsfyrirtækisins að möguleikarnir á frekari styrkingu opinberra fjármála vegi á móti hættunni á ofhitnun hagkerfisins.
Margt er talið Íslandi til kosta og búist er við sterkum hagvexti en á móti eru nokkrir áhættuþættir sem taka þarf til greina taldir upp, til dæmis stærðargráða launahækkana og hækkun húsnæðisverðs sem gefa til kynna að ofþensla geti átt sér stað á næstu tveimur árum.