Fyrirtækið Alopex Gold, sem hefur fjárfest í gull- og sinknámum á Grænlandi og var í gær skráð á hlutabréfamarkað í kauphöllinni í Toronto, mun hefjast handa við að bora eftir gulli á Grænlandi í ágúst. Fyrirtækið er að stórum hluta í eigu Íslendinga.
„Þetta er í raun og veru niðurstaða fimm ára vinnu á Grænlandi, alveg síðan 2012, sem við höfum verið að einblína á að komast inn í gullleitarleyfi í Suður-Grænlandi,“ segir Eldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Alopex Gold, í samtali við mbl.is. Fyrirtækið keypti Nalunaq-gullnámuna á Grænlandi ásamt Cyrus Capital á árunum 2014-2015 og hefur síðan keypt upp fjölda rannsóknarleyfa á Suður-Grænlandi.
„Við erum stærsti leyfisveitandinn á gullleitarleyfum í Suður-Grænlandi og þar er Nalunaq, fyrrverandi gullnáman, langlengst komin. Það er náma sem á yfir 10 ára tímabili voru framleidd úr einhver 10 tonn af gulli og þeirri vinnslu var hætt 2014. Síðan þá höfum við verið að rannsaka til að finna framlengingu á gullæð sem er metri á þykkt til að finna meira efni og vinna meira efni,“ segir Eldur. Heill kílómetri fannst af æðinni sem heldur áfram upp í fjallið þar sem borað verður og til stendur að vinnsla hefjist í framhaldinu.
„Boranir byrja 15. ágúst og við munum klára þær undir lok september, miðjan október. Við erum að bora bæði í dalbotninum sjálfum og síðan uppi í fjallinu þar sem við munum fara með borinn upp í þyrlu og búa til palla til að bora í gegnum fjallið,“ segir Eldur.
Að sögn Elds liggur fyrir að umrædd æð nær alla leið í gegnum fjallið og er nú verið að staðsetja hana. Þá eru einnig vísbendingar um að það gætu verið tvær aðrar æðar í fjallinu sem verða kannaðar líka.
Að sögn Elds eru flest ung námufyrirtæki (e. junior mining companies) fjármögnuð í gegnum markað. „Strúktúrinn er settur þannig upp að markaðurinn skilur mjög vel þessar eignir, bæði eru öll skýrslugerð og svokölluð úrlausnar- og rannsóknarefni mjög stöðluð,“ segir Eldur.
„Við töldum rétta tímann vera núna því við teljum okkur geta byrjað vinnslu, að því gefnu að rannsóknir gangi vel auðvitað, innan ekki svo langs tíma. Nú erum við skráðir og búnir að safna þarna tæplega sjö milljónum Kanadadollara og nú verður auðvelt fyrir okkur að fara alltaf inn á markað til að safna meira fjármagni og virðismeta eignina okkar á sama tíma.“