Hagar hafa lækkað um 3,9% í Kauphöllinni frá því að markaðir opnuðu í morgun en í gær var greint frá því að Samkeppniseftirlitið hafi hafnað kaupum félagsins á Lyfju. Gengi bréfa Haga stendur nú í 37,6 krónum.
Önnur félög hafa lækkað í Kauphöllinni í dag, þar á meðal N1 um 2,14% og Fjarskipti um 1,3%.
Skeljungur, sem á sunnudaginn greindi frá því að ekki yrði af kaupum félagsins á Basko, sem á m.a. verslanir 10-11 og Iceland, hefur lækkað um 0,7% það sem af er degi.
17. nóvember í fyrra tilkynntu Hagar um kaup á öllu hlutafé í Lyfju. Kaupin voru þó háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
„Niðurstaðan er vonbrigði og mun félagið taka hana til sérstakrar skoðunar næstu daga. Þá ber að árétta að Hagar höfðu ekki tekið við rekstri Lyfju og mun ákvörðunin því ekki hafa áhrif á áður birt reikningsskil félagsins,“ sagði í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar í gær.