Kökuverslunin 17 sortir verður opnuð í Kringlunni von bráðar en eigendur verslunarinnar fengu afhent rými þar í gær. Rýmið er rúmir 40 fermetrar að stærð, við hlið Útilífs á fyrstu hæð Kringlunnar.
Verslunin 17 sortir var opnuð að Grandagarði í nóvember 2015 og hefur notið mikilla vinsælda síðan.
Rekstrarstjóri 17 sorta, Dagbjört Þorsteinsdóttir, segir í samtali við mbl.is að á staðnum í Kringlunni verði rétt eins og á Granda hægt að grípa með sér kökur og borða á staðnum. Stærri pantanir verða þó aðeins afgreiddar frá Grandagarði.
Hún segir framkvæmdirnar fram undan í Kringlunni ekki mjög miklar en þó einhverjar. „Við þurfum að setja upp innréttingar og erum byrjuð að vinna í því núna að láta teikna fyrir okkur rýmið. En við vitum ekki alveg hvenær við getum opnað enda vorum við bara að fá rýmið í gær,“ segir Dagbjört.
Eins og fyrr segir hafa 17 sortir notið mikilla vinsælda frá opnun og segir Dagbjört nýja staðinn í Kringlunni gerðan til þess að svara eftirspurn viðskiptavina um að opna stað meira miðsvæðis. „Fólk hefur sótt mikið í Grandann en einnig kallað eftir því að fá annað útibú miðsvæðis,“ segir Dagbjört.
Tilkynnt var um nýju verslunina í Kringlunni á Facebook-síðu 17 sorta í gær og um leið kallað eftir hugmyndum viðskiptavina um nýjar kökur til þess að bjóða upp á. Að sögn Dagbjartar létu viðbrögðin ekki á sér standa og hafa margar góðar hugmyndir borist. „Við viljum hlusta á viðskiptavininn og höfum gert það heilmikið hingað til.“