Breska flugfélagið British Airways mun í haust hefja beint flug til Keflavíkurflugvallar frá London City-flugvellinum sem er í miðborg Lundúna.
Greint er frá þessu á vef Túrista.is.
Þar kemur fram að British Airways hafi nýverið tvöfaldað flug sitt hingað til lands frá Heathrow-flugvelli en tvö ár eru síðan British Airways hóf Íslandsflug og voru ferðirnar þá þrjár í viku frá Heathrow-flugvelli. Félagið flaug svo til Íslands allt að daglega síðasta veður en næsta vetur verða farnar tvær ferðir til Keflavíkurflugvallar frá Heathrow.
Ferðirnar frá London City verða farnar tvisvar í viku en flugvöllurinn er við bakka Thames-árinnar í austurhluta Lundúna.
Í frétt Túrista kemur fram að þar megi aðeins notast við minni gerðir af farþegaflugvélum og mun British Airways notast við Embraer E190SR-flugvélar í fluginu hingað en í þeim eru sæti fyrir 98 farþega. Flogið verður á fimmtudögum og sunnudögum frá lokum október og fram í enda marsmánaðar og kosta ódýrustu farmiðarnir um 8 þúsund krónur að sögn Túrista. „Það er nokkru meira en lægstu fargjöld British Airways til Íslands frá Heathrow kosta því samkvæmt athugun Túrista er töluvert úrval af flugmiðum í boði á þeirri flugleið á 4.420 krónur en borga þarf aukalega fyrir innritaðan farangur hjá breska flugfélaginu,“ segir í fréttinni.