Hópbílar og Kynnisferðir áttu hæstu tilboð sem bárust í útboði Isavia á aðstöðu fyrir hópferðabifreiða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Alls bárust þrjú tilboð en Gray line, sem hefur haft aðstöðu á flugvellinum undanfarin ár, átti lægsta tilboðið. Að óbreyttu mun Gray line því missa sitt pláss yfir til Hópbíla en unnið er nú að því að meta gildi tilboða og hefur endanleg ákvörðun ekki verið tekin ennþá.
Félag hópferðaleyfishafa lagði í júní fram kæru til kærunefndar útboðsmála vegna útboðsins í aðstöðuna sem byggðist að meginstefnu á því að útboðslýsingin hafi verið ónákvæm og til þess fallin að raska jafnræði bjóðenda í andstöðu við lög um opinber innkaup.
Kröfu Félags hópferðaleyfishafa um að útboðið yrði stöðvað um stundarsakir var hafnað af kærunefndinni með úrskurði hennar 13. júlí. Úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar en Félag hópferðaleyfishafa fór fram á það til vara að útboðið yrði auglýst á nýjan leik.
„Það voru þrjú tilboð sem bárust í aðstöðuna og Hópbílar og Kynnisferðir áttu hæstu tilboðin af þremur en nú er verið að meta gildi tilboða þannig það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.
Er nú verið að afla gagna til að ganga úr skugga um að fyrirtækin standist kröfur. Að því loknu verður samið við fyrirtækin tvö sem buðu best, að því gefnu að þau standist kröfur. Gert er ráð fyrir að nýir samningar taki gildi 1. mars 2018.