Smásölurisinn Hagar hefur tilkynnt Rannsóknasetri verslunarinnar að félagið muni ekki lengur taka þátt í íslensku smásöluvísitölunni. Það þjóni ekki hagsmunum félagsins.
Þetta hefur Morgunblaðið eftir öruggum heimildum. Samkvæmt þeim er grundvöllur smásöluvísitölunnar þar með brostinn. Henni var ýtt úr vör árið 2002 og hafa greiningardeildir bankanna, Seðlabankinn, Hagstofan og fleiri aðilar á markaði notað hana í greiningu sinni. Hún sýnir breytingar á veltu í smásöluverslun.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, að tilkoma Costco muni hafa áhrif á hönnun og uppsetningu íslenskra verslana. Horft verði til þessa við stækkun Kringlunnar. H&M sé ekki eina erlenda verslanakeðjan sem sé á leið í Kringluna.