Gerðardómur oft besti valkosturinn

Garðar Víðir Gunnarsson.
Garðar Víðir Gunnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Garðar Víðir Gunnarsson, hdl. og eigandi á LEX lögmannsstofu, er sérfræðingur á sviði gerðardómsréttar. Hann segir það algengara en margir halda að viðskiptatengd ágreiningsmál fari fyrir gerðardóm.

Málsmeðferð fyrir gerðardómi fer alla jafna ekki hátt enda er málsmeðferðin og úrlausnin yfirleitt bundin trúnaði. Trúnaðarskyldan er talin einn helsti kostur gerðarmeðferðar ásamt skilvirkni og þeim möguleika að skipa gerðarmenn sem eru sérfræðingar á því sviði sem um ræðir.

„Í alþjóðlegum samanburði er djúpt í árinni tekið að segja að það sé algengt að leyst sé úr ágreiningsmálum fyrir gerðardómi hérlendis. Það hefur þó klárlega orðið aukning undanfarin ár og gerðarmeðferð er eflaust algengari en fólk gerir sér grein fyrir. Kostir gerðardóms eru fjölmargir og vel þekktir í alþjóðaviðskiptum en úrræðið hefur þó ekki notið viðlíka vinsælda hér á landi og í þeim ríkjum sem við berum okkur alla jafna saman við. Í alþjóðaviðskiptum má segja að það sé algengara að mælt sé fyrir um gerðardóm heldur en málsmeðferð fyrir hefðbundnum dómstólum. Samningsaðilum þykir æskilegt að ef til ágreinings komi þá sé hann leystur af gerðardómi í hlutlausu landi fremur en að þurfa að reka mál fyrir dómstólum í heimaríki annars aðilans,“ segir Garðar. 

„Það er alþjóðlega viðurkennt og í frumvarpi með lögum um samningsbundna gerðardóma frá 1989 kemur t.a.m. fram að um það bil 80% alþjóðlegra viðskiptasamninga á heimsvísu innihaldi ákvæði um gerðarmeðferð. Hlutfallið hefur eflaust hækkað síðan þá enda gerðarmeðferð verið í mikilli sókn síðan þá. Þá má nefna að í Svíþjóð er þróun réttarsviðsins komin einna lengst af öllum löndum á Norðurlöndunum og talið að 80% allra viðskiptatengdra ágreiningsmála á milli einkaaðila séu útkljáð fyrir gerðardómi.“

Góður valkostur

Eðli málsins samkvæmt eru engar opinberar tölur til um fjölda mála sem leyst eru fyrir gerðardómi hér á landi en aðspurður segir Garðar helstu ástæðu þess að úrræðið sé minna notað hér en í nágrannalöndum líklega vera skilvirkni íslenskra dómstóla. „Það er auðvitað mjög jákvætt hvað íslenski dómstólar eru skilvirkir og aðgengilegir. Úrlausn ágreinings fyrir gerðardómi kann þó í einhverjum tilvikum að falla betur að þeim hagsmunum sem í húfi eru, t.a.m. ef ágreiningurinn er þess eðlis að mikilvægt er að fá skjóta úrlausn. Almennt má segja að úrlausn gerðardóms liggi fyrir innan 6 mánaða frá því að gerðarmenn hafa verið skipaðir en sú úrlausn er endanleg og sætir ekki áfrýjun. Í því felst auðvitað ákveðið hagræði en það getur líka verið ókostur að geta ekki áfrýjað málinu. Lögsaga gerðardóms er tilkomin vegna samnings málsaðila, málsmeðferðin er sveigjanlegri og málsaðilar hafa mun meira um hana að segja heldur en fyrir almennum dómstólum, þannig geta þeir samið um hvernig gagnaframlagningu og sönnunarfærslu skuli háttað, hvert skuli vera inntak trúnaðarskyldunnar o.s.frv. Þá eru málsaðilar almennt þátttakendur í því ferli að velja gerðarmenn, algengt er að hvor aðili um sig tilnefni einn gerðarmann og þessir tveir gerðarmenn tilnefna svo formann gerðardómsins. Gerðarmenn skulu þó ávallt vera sjálfstæðir og óvilhallir í störfum sínum óháð því hver tilnefndi þá til starfans.“

Breytt viðhorf

Undanfarin ár hefur viðhorf til gerðardóms breyst talsvert og þekking á sviðinu aukist meðal lögfræðing enda mun fleiri sem sækja framhaldsmenntun erlendis. Þá verða í vetur kenndir sérstakir áfangar um gerðardómsrétt bæði í Háskólanum í Reykjavík og á Bifröst. Viðskiptaráð Íslands hefur áratugum saman, þó með hléum, starfrækt gerðardómsstofnun. Reglur stofnunarinnar voru endurskoðaðar árið 2015 og hefur Viðskiptaráð undanfarið staðið að kynningum á þessu úrræði.

„Gerðarmeðferð er raunhæfur og praktískur valkostur fyrir fyrirtæki og fyrirtæki hafa í auknum mæli áttað sig á þeim kostum sem það kann að hafa í för með sér að leysa úr ágreiningsmálum fyrir gerðardómi. Það er þó enn ýmislegt sem mætti gera betur og það hefur borið á því að menn séu smeykir við gerðardóm eða þekki úrræðið ekki nægilega vel. Þá hafa einhverjar úrlausnir gerðardóma ratað í fjölmiðla undanfarin ár og einhverjar þeirra ekki af góðu þar sem upplifun málsaðila af ferlinu hefur ekki verið góð. Til að koma í veg fyrir slíkt og tryggja að málsmeðferð sé í samræmi við væntingar aðila þarf að passa upp á hvernig staðið er að málum í öllu ferlinu allt frá því að gerðardómsákvæðið er sett inn í samninginn,“ segir Garðar.

„Það er algengt að samningar sem kveða á um gerðarmeðferð mæli fyrir um svokallaða „ad hoc“-gerðarmeðferð (einstaklega ákveðin gerðarmeðferð) og tíundi ekki þær reglur sem skuli gilda. Þessu er öfugt farið erlendis þar sem yfirleitt er notast við gerðardómsstofnanir, sambærilegar Gerðardómi Viðskiptaráðs Íslands, sem hafa til staðar ákveðnar gerðardómsreglur sem mæla fyrir um málsmeðferð og sjá um utanumhald málsins. Það eru kostir og gallar sem fylgja hvorri leið fyrir sig en helstu fræðimenn á sviðinu telja að „ad hoc“ henti þeim best sem eru vanir notendur gerðarmeðferðar. Skýringin á vinsældum „ad hoc“ ákvæða hér á landi er væntanlega sú að vöntun hefur verið á þjónustu gerðardómsstofnana, en það ætti nú að hafa breyst með tilkomu nýs regluverks Gerðardóms Viðskiptaráðsins og markvissri kynningu á þjónustunni.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK