Broskallar virðast vera frekar saklausir en að nota þá í vinnutölvupóstum getur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem var birt í ritinu Social Psychological and Personality Science og gerð af vísindamönnum við Ben-Gurion háskólann í Ísrael. Í rannsókninni skoðuð þeir hvort að broskallar í skilaboðum tengdum vinnu hefðu einhver áhrif og komust þeir að því að broskallinn, þó svo að hann sé tákn fyrir hlýju, geti vakið upp öðruvísi tilfinningar hjá þeim sem fær póstinn.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar fannst fólki þeir sem sendu frá sér broskalla líklegri til þess að vera minna hæfir í starfi en þeir sem gerðu það ekki. Þó var það mat þeirra að bros séu tákn fyrir hlýju og hæfn en á sama tíma getur getur broskall fengið þann sem fær skilaboðinn til að vera ólíklegri til þess að deila eins miklum upplýsingum.
„Niðurstöður okkar benda til þess að þvert á alvöru bros, geta broskallar aðeins lítillega aukið tilfinninguna um hlýju en dregið úr tilfinningunni um hæfni,“ er haft eftir Ellu Glikson, einum af vísindamönnunum sem gáfu út rannsóknina. „Í formlegum viðskiptatölvupóstsamskiptum er broskall ekki bros.“
Vísindamennirnir gerðu þrjár rannsóknir á 549 manns frá 29 löndum. Í einni rannsókn las fólk nafnlausan tölvupóst og áttu síðan að meta sendandann út frá hæfni. Yfirhöfuð leit fólkið svo á að sá sem sendi skilaboð án broskalla væri hæfari en sá sem sendi skilaboð með brosköllum.
Þegar að fólk í rannsókninni var beðið um að svara tölvupóstinum veittu þau þeim sem sendu póst án broskalla meiri upplýsingar en þeim sem sendu broskalla. „Deiling upplýsinga var mun minni hjá þeim sem fengu broskalla,“ kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar.
Þá kemur einnig fram að fólk hafi frekar haldið að sendandi sem notaði broskalla væri kvenkyns. Í samtali við Time ráðleggur Glikson fólki að leyfa ekki brosköllum að eyðileggja möguleika þeirra þegar það kemur að fyrstu kynnum. „Í fyrstu samskiptum er betra að sleppa að nota broskalla, og þá skiptir aldur og kyn ekki máli,“ sagði hún.