Stýrivextir áfram 4,5%

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5%. Þetta er í samræmi við væntingar greingardeilda en þær höfðu spáð óbreyttum vöxtum.

Útlit er fyrir að hagvöxtur í ár verði hraður eins og á síðasta ári en nokkru hægari en spáð var í maíhefti Peningamála. Hagvöxturinn er einkum drifinn af vexti ferðaþjónustu og einkaneyslu auk þess sem útlit er fyrir slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár, að því er segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar. 

Gengi krónunnar hefur hækkað um tæp 8% á einu ári

Verðbólga var lítillega minni á öðrum fjórðungi ársins en spáð var í maí. Hún mældist 1,8% í júlí og hafði aukist úr 1,5% í júní. Undirliggjandi verðbólga virðist hins vegar hafa haldið áfram að minnka.

„Gengi krónunnar hefur lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar en það er þó enn tæplega 8% hærra en á sama tíma í fyrra. Gagnstæðir kraftar hafa sem fyrr áhrif á verðbólguhorfur, þar sem hækkun gengis krónunnar undanfarið ár og lítil alþjóðleg verðbólga vega á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum. Hefur bilið á milli verðþróunar innlendra þátta, einkum húsnæðiskostnaðar, og erlendra þátta haldið áfram að aukast síðustu mánuði, sem eykur óvissu um verðbólguhorfur til næsta árs.

Frá síðasta fundi peningastefnunefndar hafa skammtíma verðbólguvæntingar hækkað lítillega sem líklega endurspeglar að hluta áhrif lækkunar á gengi krónunnar að undanförnu. Verðbólguvæntingar til langs tíma hafa hins vegar lítið breyst sé miðað við nýlega könnun Seðlabankans á verðbólguvæntingum markaðsaðila. Lengri tíma verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur þó hækkað undanfarna daga en það sem af er þessum ársfjórðungi er það í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið bankans,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Hræringar benda til breytinga

Spenna í þjóðarbúskapnum kallar á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma, segir enn fremur í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

„Hræringar hafa verið á gjaldeyrismarkaði og vísbendingar eru um að breytingar gætu verið fram undan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði. Of snemmt er að fullyrða um umfang og afleiðingar þeirra. Raunvextir bankans hafa lækkað lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar en virðast við núverandi aðstæður samrýmast því sem þarf til að verðbólga verði að jafnaði við markmið. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK