Ófyrirséðar afleiðingar af Costco

Jón Gerald Sullenberger
Jón Gerald Sullenberger mbl.is/Árni Sæberg

Jón Gerald Sullenberger í Kosti hefur velt fyrir sér þeirri ákvörðun yfirvalda að leyfa risaverslun eins og Costco að koma inn á þann örmarkað sem Ísland er.

Hann segir hættu á að ákvörðunin hafi ófyrirséðar afleiðingar til lengdar. Vísar hann þar til áhrifa svokallaðra „boxverslana“ á nærumhverfi sitt í Bandaríkjunum, en hann segir að þessar tegundir verslana séu í auknum mæli bannaðar, þær fái ekki byggingarleyfi til að opna risaverslanir.

„Þróunin í gegnum árin hefur ekki alltaf verið góð í minni samfélögum,“ segir Jón í umfjöllun um þetta mál í ViðskiptaMogganum í dag.

Hann segir að Kostur eigi stóran þátt í því að heildverslunin Costco sé hingað komin. „Ég hef verið í viðskiptum við þá síðastliðin 27 ár og í gegnum árin hef ég flutt inn mikið af vörum frá þeim til Íslands. Það má segja að þeir hafi nýtt okkur í sína markaðsrannsókn á Íslandi. Fulltrúar verslunarinnar hafa verið tíðir gestir hjá mér. Þeir skoðuðu búðirnar hér heima og svæðisstjórinn sagði við mig að ef hann ætti heima á Íslandi myndi hann versla í Kosti, honum fyndist Kostur skemmtilegasta búðin, enda flott verslun í þeirra anda. En að lokum ákváðu þeir, vegna tolla, merkingamála og innflutningshafta, að flytja vörur frá Bretlandi en ekki Bandaríkjunum, eins og upphaflega var áætlað. Heildverslunin Costco á Íslandi er því breskt útibú Costco með breskar matvörur, breskan verslunarstjóra og fullt af bresku starfsfólki, og eina verslunin sem ekki er stjórnað frá því landi þar sem hún starfar, heldur alfarið stjórnað frá Bretlandi.“

Koma Costco til landsins hefur valdið samdrætti í verslun í Kosti. „Til að mæta breyttum aðstæðum ákváðum við að breyta áherslum í Kosti og erum búin að semja við nýjan birgi í Bandaríkjunum. Þetta er stór dreifingaraðili sem dreifir í um það bil 600 verslanir. Þessi breyting kemur til með að lækka vöruverð til okkar um 10-15% sem mun skila sér til íslenskra neytenda. Við munum einnig bjóða upp á breiðara vöruúrval og minni pakkningar. Annað sem við erum að skoða er breyttur afgreiðslutími og að hafa opið til miðnættis, enda er það nokkuð sem viðskiptavinir hafa kallað eftir.“

Kostur hefur að sögn Jóns Geralds lagt mikinn metnað í að hafa grænmeti og ávexti sem ferskast og á betra verði en gengur og gerist á markaðnum. „Við flytjum það inn sjálfir, bæði með flugi og skipi. Við fljúgum með viðkvæmari vörur eins og ber, salat og ferskar kryddjurtir nánast daglega frá New York og flytjum inn gám frá Hollandi í hverri viku. Við höfum alltaf fengið hrós fyrir ferskt og gott grænmeti og höfum haft mikil áhrif á verð og gæði á grænmeti og ávöxtum hér á landi með okkar beina innflutningi.“

Jón Gerald fagnaði á sínum tíma komu Costco til landsins og ítrekar við blaðamann að hann fagni allri samkeppni ef hún er byggð á sanngjörnum grunni. Hann segir að Costco bjóði vörur undir kostnaðarverði sem sé ekki sanngjörn samkeppni. Þetta sjái hann með einföldum verðsamanburði á milli Costco-verslunar í Bretlandi og verslunarinnar í Garðabæ. „Þeir nota þá þekktu markaðstækni að selja ýmsar vörur langt undir kostnaðarverði til að ná viðskiptavinum inn í búðina. Það að ásaka okkur hina um að arðræna þjóðina þar sem við erum ekki með sama útsöluverð og þeir á þessum vörum er ekki sanngjart og alls ekki rétt ásökun í okkar garð.“

Greinileg undiralda er í sálartetri þjóðarinnar, að mati Jóns Geralds. Hann greinir mikla óánægju og reiði og að menn séu til í að refsa öllum íslenskum kaupmönnum. „Ég tel að þetta eigi helst við um Haga og yfirmenn þeirra en það hefur lítið að gera með okkur hin. Eins má benda á að þetta er komið í heilan hring, því hverjir eru stærstu eigendur stóru keðjanna í dag? Jú, það eru lífeyrissjóðirnir okkar. Það er eins og fólk átti sig ekki á þessu. Það refsar fyrirtækjum sem það á sjálft! Þetta er pínu fáránlegt allt saman.“

 Hér er hægt að lesa viðtalið við Jón Gerald í ViðskiptaMogga dagsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka