Það þarf að vara sig á hagfræðinni

G. Sverrir Þór hagfræðingur.
G. Sverrir Þór hagfræðingur.

„Ég ýtti á „pu­blish“-takk­ann á þriðju­dag­inn,“ seg­ir G. Sverr­ir Þór í sam­tali við ViðskiptaMogg­ann en hann nýtti sér virkni í Amazon-vef­bóka­búðinni og gaf nýja hag­fræðibók sína út sjálf­ur, til lest­urs á Kindle-spjald­tölv­um. Hana má einnig panta í stórri kilju hjá Amazon þar sem bók­in er prentuð eft­ir pönt­un. Aðspurður seg­ist hann nú þegar hafa fengið góð viðbrögð.

Bók­in er ætluð al­menn­ingi og er að hans sögn ádrepa fyr­ir hag­fræðinga og yf­ir­völd sem styðjast við hag­fræðikenn­ing­ar, eins og hann orðar það. Eng­in flók­in gröf eða formúl­ur er að finna í bók­inni að hans sögn.

„Stór hluti efna­hags­stefnu sem stjórn­mála­menn leggja fram, áætl­un­um og frum­vörp­um, bygg­ist á hag­fræðigrein­um sem þeir hafa lesið, en hag­fræðing­ar eru ekki alltaf nógu dug­leg­ir að leggja fram for­send­ur fyr­ir sín­um grein­ing­um. Stjórn­mála­menn­irn­ir sem nota kenn­ing­ar hag­fræðing­anna vita því ekki alltaf á hverju grein­ing­in bygg­ist, sem get­ur verið mjög baga­legt og valdið miklu tjóni.“

G. Sverr­ir Þór seg­ist meðvitað reyna að vera ögr­andi í bók­inni. „Til að koma af stað umræðu verður maður að ögra.“

Neyt­end­um ekki um að kenna

Hann seg­ist í bók­inni ekki vera á þeirri skoðun að neyt­end­ur ein­ir og sér geti sett hag­kerfi á haus­inn, held­ur sé það alltaf kerf­inu að kenna. „Menn gagn­rýndu Grikki og sögðu ástæðuna fyr­ir því að þeir hefðu lent í vanda­mál­um í alþjóðlegu fjár­málakrís­unni þá, að þeir færu svo snemma á eft­ir­laun. Björgólf­ur Guðmunds­son fjár­fest­ir sagði eft­ir­minni­lega að við Íslend­ing­ar ætt­um öll á okk­ar hátt sam­eig­in­lega sök á hrun­inu, þar sem við hefðum keypt okk­ur flat­skjái. Mín skoðun er sú að það sé ekki neyt­and­an­um og ein­stak­lingn­um að kenna ef heilt hag­kerfi hryn­ur. Hann neyt­ir inn­an þess svig­rúms sem kerfið, þ.e. markaður­inn og hið op­in­bera, set­ur hon­um. Það er erfitt að skella skuld­inni á þá sem hafa ekki for­send­ur til að greina markaðinn eða hreyfa við hon­um upp á sitt ein­dæmi.“

Hann seg­ir máli sínu til stuðnings að fyr­ir hrun hafi jafn­vel nó­bels­verðlaunaðir hag­fræðing­ar verið flutt­ir hingað til lands til að segja að allt væri hér í himna­lagi. „Menn eru að mis­nota hag­fræðina og þess vegna er tit­ill bók­ar­inn­ar: Varúð: Hag­fræði. Þetta er ekki vegna þess að hag­fræðin sé svo lé­leg, eða rann­sókn­irn­ar illa gerðar, held­ur vegna þess að al­menn­ing­ur og stjórn­mála­menn vita ekki hvað ligg­ur að baki. Það þarf að vara sig á hag­fræðinni, en ég er ekki að gera lítið úr henni.“

En er ekki hægt að kíkja í bak­sýn­is­speg­il­inn og læra af reynslu og mis­tök­um fyrri ára?

„Jú menn reyna það, með mis­jöfn­um ár­angri. Menn lærðu af krepp­unni miklu árið 1929. Ben Bernan­ke, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Banda­ríkj­anna, sem stóð vakt­ina þegar síðasta fjár­málakreppa reið yfir, var sér­fræðing­ur í krepp­unni miklu og vissi hvað menn gerðu rangt þá. Hann prófaði því eitt­hvað annað en reynt var þá og það náðist betri ár­ang­ur þótt það hafi ekki verið full­komið.“

En hvað með Ísland, má draga lær­dóm af hrun­inu sem varð hér á landi?

„Í bók­inni ræði ég um mik­il­vægi þess að fjár­festa í innviðum sem mér finnst ekki hafa mikið verið gert. Ferðamenn streyma til lands­ins en veg­irn­ir eru til dæm­is í slæmu ásig­komu­lagi. Við bjugg­um landið ekki und­ir þetta eins og við hefðum átt að gera. Innviðir grotna niður ef þeim er ekki viðhaldið. Það sem kom til góða hér á landi var að Íslend­ing­ar höfðu sína grunn­atvinnu­vegi, sjáv­ar­út­veg­inn og orku­fram­leiðsluna. Grikk­ir til sam­an­b­urðar hafa í raun enga grunn­atvinnu­vegi aðra en ferðamennsku. Þeir hafa ekki þetta ör­ygg­is­net sem Íslend­ing­ar höfðu í sín­um grunn­atvinnu­veg­um.“

En hvað með mynt­ina, hefði ekki skipt máli ef Grikk­ir hefðu getað stjórnað henni eins og Íslend­ing­ar gátu gert með krón­unni?

„Ég er nú svo mik­ill Evr­óp­us­inni. Ég tel að ef við hefðum haft evr­una á Íslandi, þá hefði hrunið ekki orðið svona slæmt. En auðvitað er sveigj­an­leik­inn minni með evr­una. Írar eru þó með evru og þeim gekk bet­ur að vinna sig út úr krepp­unni en Grikkj­um, enda eru þeir með grunn­atvinnu­vegi, eins og til dæm­is þekk­ing­ariðnað.

Ann­ar lær­dóm­ur sem ég vil draga af hrun­inu er að hið op­in­bera fjár­festi. Þú get­ur ekki sparað þig út úr kreppu, það verður að halda uppi neyslu­getu í hag­kerf­inu. Eitt af því sem ýtti mér af stað í að skrifa þessa bók var að mér fannst Íslend­ing­ar alltof værukær­ir eft­ir hrunið.“

En hvað með stöðuna í dag, hverj­ar eru horf­urn­ar, hringja ein­hverj­ar viðvör­un­ar­bjöll­ur?

„Það þarf að passa að það sé sam­hljóm­ur á milli rík­is­fjár­mála og pen­inga­stefnu. Ég er líka svo­lítið hrædd­ur við fullt af­nám hafta. Íslenska hag­kerfið er mjög lítið og ef ein­hverj­um ut­anaðkom­andi dytti í hug að fella gengið, þá er svo lítið viðnám. Svo er hætta á fast­eigna­bólu. Íbúðabygg­ing­ar eru hluti af innviðunum sem hefði mátt hlúa að strax eft­ir hrun. Það þarf að viðhalda hús­næðismarkaði. Það sama gild­ir um skóla, sjúkra­hús og fleira, sem er hluti af sam­neysl­unni. Oft þarf að auka hana í kreppu. Það kost­ar pen­inga að færa Ísland inn í framtíðina.“

Per­sónu­leg­ur stíll

G. Sverr­ir Þór not­ar per­sónu­leg­an stíl og fyrstu per­sónu frá­sögn í bók­inni, sem er frek­ar óvenju­legt. Hann er óhrædd­ur við að rekja per­sónu­lega hagi sína og greina frá hvernig þeir tengj­ast til­komu bók­ar­inn­ar, eins og til dæm­is þegar hann seg­ir frá skilnaði sem dró úr hon­um orku í lang­an tíma. „Ég skrifa „ég“ en ekki „við“ eins og tíðkast í fræðigrein­um. Ég vil að fólk geti tengt við ein­hverja per­sónu. Mér finnst sjálf­um skemmti­legra að lesa þannig texta.“

Er von á fleiri bók­um?

„Ég skrifa nátt­úr­lega reglu­lega pistla um efna­hags­mál í mínu starfi þannig að það gæti vel verið að ég tæki það sam­an. Ég hef til dæm­is mik­inn áhuga á „apple“-hag­kerf­inu eins og ég kalla það, eða skamm­sýna hag­kerf­inu, þar sem ný vara kem­ur á hverju ári, og því hvernig ferl­arn­ir stytt­ast í sí­fellu.“

G. Sverr­ir Þór seg­ir að bók­in eigi mikið er­indi í dag, þó svo að stór hluti henn­ar hafi verið skrifaður árið 2011. „Það er skemmst að minn­ast þrennra ný­legra óánægju­kosn­inga, þar sem fólk kýs með fót­un­um; Brex­it í Bretlandi og for­seta­kosn­ing­anna í Banda­ríkj­un­um og Frakklandi. Þetta sýn­ir að bók­in á er­indi í dag. Þarna er kosið gegn kerf­inu sem hef­ur brugðist.“

Bókarkápan.
Bók­ar­káp­an.
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK