Kröfuhafar United Silicon samþykktu í dag að óskað yrði eftir framlengingu á greiðslustöðvun félagsins svo að freista megi þess að finna lausn á vanda þess.
Þetta segir Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður sem er aðstoðarmaður skuldarans á greiðslustöðvunartíma.
Beiðni verður tekin fyrir á mánudaginn kl. 14 en meðal kröfuhafa eru Arion banki, Íslenskir aðalverktakar, Landsvirkjun, Reykjanesbær og ítalska fyrirtækið Tenova sem seldi United Silicon ljósbogaofninn.
Í ársfjórðungsuppgjöri Arion banka kom fram að bankinn hefði lánað félaginu 8 milljarða króna sem væru útistandandi og hann ætti nú í samræðum við félagið um að draga úr mögulegu framtíðartapi vegna lánsins.
Þá skuldar fyrirtækið ÍAV einn milljarð króna samkvæmt niðurstöðu gerðardóms frá því fyrr í sumar. Einnig skuldar United Silicon Reykjanesbæ 162 milljónir króna.