„Reksturinn hefur gengið illa síðan í maí þegar framkvæmdirnar hófust. Þá strax fundum við fyrir því að salan minnkaði hjá okkur og við það bætist að þeir sjá fram á að vera að kraninn verði fyrir framan okkur í meira en ár í viðbót. Eftir að hafa skoðað stöðuna þá ætlum við ekki inn í veturinn með þetta svona.“
Þetta segir Óli Már Ólason, eigandi veitinga- og skemmtistaðarins Vegamóta, en dyrum staðarins verður lokað í byrjun októbermánaðar. Í samtali við mbl.is segir hann að lokuninni valdi framkvæmdir við byggingu nýs hótels fyrir framan staðinn.
„Alla daga í sumar er búið að vera að fleyga þarna niður. Því fylgja rosa mikil læti og svo er byggingakraninn beint fyrir framan hjá okkur. Fyrir fólk sem er að labba Laugaveginn eða aðrar götur í kring þá lítur þetta út eins og eitt stórt byggingarsvæði,“ segir Óli.
„Þá er heldur ekki skemmtilegt fyrir fólkið sem situr inni á staðnum og horfir út um gluggann á eintómt byggingarsvæði. Salan hefur því minnkað hjá okkur bæði á daginn og á kvöldin og það byrjaði að gerast á sama tíma og framkvæmdirnar, þannig ég get bara skrifað þetta á þær.“
Óli segir að sér finnist einkennilegt að þetta sé leyfilegt, að koma fyrir byggingakrana á miðri götu í rúmt ár.
„Mér finnst mjög skrýtið að mönnum sé gefið leyfi á það að setja niður krana beint fyrir framan starfsemi sem er í gangi, og ekkert tillit tekið til þess að við þurfum að halda okkar rekstri gangandi, alveg sama þótt þeir séu að reisa hótel.“
Óli segir að staðnum verði lokað 1. október. Hins vegar sé stefnt að því að hefja breytingar innanhúss sem taka muni marga mánuði.
„Við ætlum að nýta tækifærið og gera það. Einhvern tímann á nýju ári munum við svo opna nýjan stað, með nýjum áherslum. Maður þarf bara að líta björtum augum til framtíðarinnar. En samt er þetta leiðinlegt, þetta verður tuttugu ára starfsafmæli okkar um þessar mundir.“