Kaupsamningur Frjálsrar fjölmiðlunar um kaup á nánast öllum eignum Pressunnar og tengdum félögum var ekki kynntur eigendum Dalsins fyrr en eftir að hann var frágenginn. Forsvarsmenn Dalsins segjast forvitnir um að heyra hverjir standi að baki kaupunum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dalnum sem fer með 68% hlut í Pressunni og er í eigu Róberts Wessmann, Árna Harðarsonar, Hilmars Þórs Kristinssonar, Halldórs Kristmannssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar. Þar segir að ef marka megi yfirlýsingar kaupanda þá verði allar skuldir félagsins gerðar upp og þá sérstaklega skuldir við tollstjóra og lífeyrisskuldbindingar starfsmanna.
Fram kemur í umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hafi ásamt hópi fjárfesta keypt allar eigur Pressunnar og tengdra félaga.
Tollstjóri mun í gær hafa farið fram á að DV yrði tekið til gjaldþrotaskipta ef ekki yrði staðið við skil á opinberum gjöldum sem námu yfir 350 milljónum króna, samkvæmt heimildum blaðsins. Með kaupum Sigurðar var staðið við þær skuldbindingar þegar nokkuð var liðið á gærdaginn.
„Dalurinn er áfram eigandi að 68% hlutar í Pressunni og ekki er ákveðið hvað verður um þann eignarhlut. En í ljósi umræddra viðskipta má telja að sá hlutur hafi lítið verðmæti þar sem eignir hafa verið seldar úr félaginu. Forsvarsmenn Dalsins eru jafn forvitnir og aðrir um að heyra hverjir standi að baki kaupunum,“ segir í tilkynningu frá Dalnum.
Ekki fengust nánari upplýsingar um málið þegar eftir því var leitað.