Unnu 70 þúsund stundir

Skautsmiðjan fer í gang tveimur mánuðum á undan álverinu.
Skautsmiðjan fer í gang tveimur mánuðum á undan álverinu. Ljósmynd/Norsk Hydro

Verkfræðistofan HRV, sem sérhæfir sig í verkefnum í áliðnaði, er um þessar mundir að ljúka þriggja ára EPCM-verkefni (Engineering, Procurement and Construction Management) þar sem fyrirtækið tók þátt í þróun lausna vegna hönnunar skautsmiðju og baðefnavinnslu nýrrar tilraunaverksmiðju Norsk Hydro í Karmøy í Noregi, allt frá frumstigum verksins. 70 þúsund klukkustundir hafa farið í verkefnið hjá HRV.

Afköst og útlit skautsmiðjunnar, þ.e. hvað varðar uppröðun véla, hönnun húss, raflagna, loftræstingar og byggingar, hafa verið í höndum HRV frá upphafi. HRV tók einnig þátt í byggingarstjórn, útboðsvinnu, innkaupum, móttöku og uppsetningu véla og tækja í skautsmiðju og baðefnavinnslu verksmiðjunnar.

Minnsta kolefnissporið

Að því er fram kemur á heimasíðu Norsk Hydro verður álverksmiðjan sú umhverfisvænsta í heimi, þökk sé nýrri tækni sem félagið þróaði. Jafnframt segir þar að kolefnisfótspor verksmiðjunnar verði það minnsta í heimi og orkuþörf verksmiðjunnar kemur jafnframt til með að verða 15% minni en meðaltalið er í heiminum.

Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður 75 þúsund tonn af áli á ári.

Skapti Valsson, framkvæmdastjóri HRV, segir í samtali við Morgunblaðið að um sé að ræða eitt stærsta fjárfestingarverkefni í Noregi í langan tíma. „Þeir eru að þróa þarna nýja tækni og eru mjög stoltir af þessu,“ segir Skapti. „Við höfum verið að vinna í verkefninu í þrjú ár. Þetta er stórt verkefni og tugir manna frá okkur hafa komið að þessu. Sex til sjö menn á okkar vegum eru þarna ennþá því það er verið að prófa og gangsetja skautsmiðjuna. Hún þarf að fara í gang tveimur mánuðum áður en álverið sjálft verður tekið í notkun.“

Harmonikkufyrirtæki

HRV er sérstakt að því leyti að það er eins og harmonikka, eins og Skapti orðar það, því það stækkar og minnkar með verkefnunum sem eru í gangi. 400 manns hafa unnið þar þegar mest hefur látið, en fæstir hafa starfsmenn verið í kringum 20. Félagið er í eigu verkfræðistofanna Mannvits og Verkís, og var stofnað árið 1998.

„Við þurfum að hafa aðgang að miklum fjölda starfsmanna þegar svona verkefni fara í gang. Þeir koma til okkar frá Verkís og Mannviti og fara til baka þegar verkefnum lýkur.“

Þrjár milljónir tíma

Skapti segir að HRV sé vel þekkt í áliðnaðinum. „Við erum nafn í þessum bransa. Við hefðum aldrei fengið þetta verkefni í Noregi nema út af okkar fyrri reynslu.“

Skapti segir að félagið hafi auk erlendra verkefna unnið í öllum álverkefnum á Íslandi síðustu tvo áratugina. Hann segir að lægð sé í álframkvæmdum á Vesturlöndum um þessar mundir. „Við erum líklega búin að vinna um þrjár milljónir tíma í álverum við verkfræðistörf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK