Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hefur fallið frá þremur samningum við Faxaflóahafnir sf. um uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga. Verður því ekki af áformum um uppbyggingu sólarkísilversins. Þetta staðfestir hafnarstjóri Faxaflóahafna í samtali við Morgunblaðið.
Michael Russo, framkvæmdastjóri Silicor Materials Iceland ehf., sendi hafnarstjóra Faxaflóahafna tilkynningu í lok ágúst sem felur í sér að lóðarsamningur, lóðarleigusamningur og hafnarsamningur, sem upphaflega voru undirritaðir í apríl 2015, taki ekki gildi. Bréfið var tekið fyrir á stjórnarfundi Faxaflóahafna sf. í gær.
„Um nokkra hríð hefur okkur verið ljóst að það voru erfiðleikar í fjármögnun,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. „Nú er útséð um að málið gangi upp af þeirra hálfu.“ Fyrirtækið hafði áður hægt á þróunarvinnu við verkefnið og seinkað byggingaráformum vegna tafa við fjármögnun.