Ný vefsíða gerir fólki kleift að bera saman vaxtakjör og aðrar upplýsingar um íbúðalán hjá 13 fjármálafyrirtækjum. Er henni ætlað að auðvelda fólki að skilja húsnæðislánamarkaðinn og að finna hagkvæmari lán.
Á herborg.is hefur Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur tekið saman vaxtakjör, veðsetningarhlutföll og lántökugjöld hjá hverju og einu fyrirtæki. Einnig er mælikvarði á hversu ströng lántökuskilyrðin eru.
Björn segir á vefsíðunni að hugmyndin hafi kviknað þegar hann hafi verið að leita að láni til að kaupa sína fyrstu íbúð.
„Þegar ég ræddi þetta ferli við aðra kom það sama í ljós. Fæstir vissu af öllum sem bjóða upp á húsnæðislán á Íslandi og höfðu bara tekið lán hjá einhverjum sem var áberandi á þeim tíma. En oft voru það ekki hagkvæmustu lánin sem voru í boði. “