Fjölgun ferðamanna verður undir sögulegum meðalvexti árið 2019 gangi spá hagfræðideildar Landsbankans eftir. Líkur á engri fjölgun og jafnvel fækkun hafa aukist verulega á síðustu mánuðum samkvæmt spánni og eru komin fram skýr merki þess að spurnin eftir Íslandi sem áfangastað sé að vaxa hægar en áður.
Þetta er meðal þess sem kom fram á ferðaþjónusturáðstefnu Landsbankans í Hörpu í dag. Spá hagfræðideildarinnar í maí gerði ráð fyrir 25% fjölgun á þessu ári og að vöxturinn yrði 10% á næsta ári og 8% árið 2019. Í endurskoðaðri spá er hins vegar gert ráð fyrir minni vexti.
Á þessu ári er spáð að fjölgunin mælist 22% en að hún minnki 2018 og verði nær sögulegum vexti, eða um 8%. Árið 2019 er gert ráð fyrir að vöxturinn verði undir sögulegum meðalvexti, eða 5%, en þá kæmu 2,5 milljónir ferðamanna til landsins það ár sem væru um það bil 117 þúsund fleiri ferðamenn en árið áður.
Hagfræðideildin segir að skýr merki séu um að spurn eftir Íslandi sem áfangastað sé að vaxa hægar en áður og að og að líkurnar á engri fjölgun eða jafnvel fækkun ferðamanna hafi aukist verulega á síðustu mánuðum. Líkurnar á fækkun ferðamanna á næsta ári séu þó fremur litlar.
Á fundinum var farið yfir stöðu ferðaþjónustu á Íslandi sem er mun háðara greininni en flest önnur lönd. Árið 2015 nam útflutningur ferðaþjónustu frá landinu um 31% af heildarútflutningi en hann var kominn upp í 39% 2016 eftir og spáir hagfræðideild Landsbankans að það verði í kringum 43% á þessu ári. Þetta hlutfall var rúmlega 7% fyrir heiminn í heild sinni árið 2015.
Hagvöxtur á tímabilinu 2011-2016 var að meðaltali 3,6%. Hagfræðideildin áætlar að á milli 40% og 50% af heildarhagvexti frá árinu 2010 megi skýra beint og óbeint með vexti í ferðaþjónustu. Áhrif ferðaþjónustunnar á hagvöxt hafi þó farið vaxandi á þessu tímabili og er næmi hagvaxtar gagnvart breytingum í útflutningsvexti ferðaþjónustunnar töluvert meira í dag en árið 2011 þegar uppsveiflan í ferðaþjónustu hófst.
Milli áranna 2010 og 2016 jókst landsframleiðslan um 462 milljarða á núverandi verðlagi. Á sama tímabili jókst útflutningur þjónustu um 246 ma.kr. Er áætlað að þar af hafi útflutningur ferðaþjónustu numið 236 milljörðum eða ríflega 50% af vexti landsframleiðslunnar.
Frá 2011 fram til júní á þessu ári nema uppsafnaðar gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar ríflega 2.000 milljörðum króna. Á þessu tímabili jukust gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar úr 163 milljörðum árið 2010 upp í 466 milljarða árið 2016.
Útflutningstekjur stóriðju, sjávarútvegs og annarra útflutningsgreina hafa þróast með öðrum hætti á tímabilinu. Þannig voru útflutningstekjur sjávarafurða 11 milljörðum króna meiri, útflutningstekjur stóriðju 47 milljörðum króna minni og útflutningsverðmæti annars útflutnings 52 milljörðum meiri. Heildaraukning útflutningsverðmætis frá landinu á tímabilinu nemur því um 320 milljörðum króna og má rekja um 95% af þeirri aukningu til aukins útflutningsverðmætis ferðaþjónustu.
Í greiningu hagfræðideildar er áætlað að ef ekki hefði orðið nein aukning í útflutningsverðmæti ferðaþjónustu á tímabilinu frá 2010 hefði að öðru óbreyttu mælst halli á vöru- og þjónustuviðskiptum undanfarin tvö ár. Hallinn hefði verið tæpir 50 milljarðar árið 2015 og tæpir 150 milljarða árið 2016. Slíkur halli hefði líklega grafið töluvert undan gengi krónunnar sem hefði aukið verðbólgu og dregið úr kaupmætti að öðru óbreyttu.