Leggja 219% refsitolla á Bombardier

Verksmiðja Bombardier í Belfast.
Verksmiðja Bombardier í Belfast. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lagst á sveif með Boeing með því að leggja refsitolla sem skaga hátt í 219% á kanadíska flugvélasmiðinn Bombardier. Aðgerðin er talin setja þúsundir starfa í Kanada og Bretlandi í hættu.

Úrskurður bandaríska viðskiptamálaráðuneytisins kom í kjölfari ásakana Boeing á hendur Bombardier um að það seldi C-vélar sínar undir kostnaðarverði til Bandaríkjanna vegna niðurgreiðslna frá yfirvöldum í Bretlandi og Kanada. Bæði lönd neita sök og hóta að sniðganga Boeing. 

Ekki er búist við lokaúrskurði í málinu fyrr en snemma á næsta ári en nýlegur úrskurður ráðuneytisins hefur skapað spennu milli ríkjanna. Hann setur verksmiðju Bombardier í Belfast í hættu þar sem 4.500 manns starfa við að framleiða vængi á flugvélarnar. 

C-vélin sem Bombardier smíðar er talin ógna fákeppnisstöðu Airbus og Boeing í styttri flugferðum og hefur nú þegar orðið til þess að flugrisarnir hafa hafið sölu nýjum skilvirkari vélum. Greint er frá málinu á fréttavef Financial Times. 

Í flota Air Iceland Connect eru sex Bombardier-vélar, þrjár af gerðinni Q400 og þrjár Q200. Þær voru keyptar til þess að koma í stað Fokker-vélanna sem voru komnar til ára sinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK