Icelandair hefur ákveðið að hefja heilsársflug til Dublin, höfuðborgar Írlands á næsta ári. Borgin verður fimmtugasti áfangastaðurinn sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu, en að undanförnu hefur félagið kynnt þrjá aðra nýja áfangastaði, Berlín, Cleveland og Dallas.
Flugið til Dublin hefst 8. maí 2018 og flogið verður sex sinnum í viku. Sala er þegar hafin, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Dublin er ágætlega þekkt borg meðal Íslendinga og oft komið til álita hjá Icelandair að hefja beint áætlunarflug þangað. Með stækkun leiðakerfis okkar á undanförnum árum og einkum mikilli fjölgun áfangastaða í Norður-Ameríku sjáum við nú tækifæri til að bæta borginni við hjá okkur, enda mun hún þétta og styrkja tengiflugið til og frá Bandaríkjunum og Kanada“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningunni. Með þessari viðbót verða 30 áfangastaðir í Evrópu og 20 í Norður-Ameríku í leiðakerfi félagsins.