Býst ekki við stefnubreytingum í hagstjórn

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri seg­ir að óvissa í stjórn­mál­um hafi ekki spilað stór­an þátt í ákvörðun Seðlabank­ans um að lækka vexti. Bank­inn hafi ekki ástæðu til að bú­ast við rót­tæk­um stefnu­breyt­ing­um í rík­is­fjár­mál­um. 

Pen­inga­nefnd Seðlabank­ans hef­ur nú lækkað stýri­vexti bank­ans úr 5,75% niður í 4,25% eða um 1,5 pró­sent­ur síðan í ág­úst á síðastliðnu ári þegar meg­in­vext­ir bank­ans stóðu hæst í nú­ver­andi efna­hags­upp­sveiflu. 

Seðlabanka­stjóri og formaður pen­inga­stefnu­nefnd­ar, og Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, aðal­hag­fræðing­ur Seðlabank­ans og meðlim­ur í pen­inga­stefnu­nefnd, kynntu rök fyr­ir ákvörðun nefnd­ar­inn­ar á fundi í morg­un. Spurður hvort að ný­leg stjórn­arslit og yf­ir­vof­andi alþing­is­kosn­ing­ar hefðu haft áhrif á ákvörðun pen­inga­stefnu­nefnd­ar svaraði Már neit­andi. 

„Þetta var rætt á fundi nefnd­ar­inn­ar en spilaði ekki stór­an þátt í ákvörðun­inni, hún byggði á horf­um í efna­hags­mál­um,“ svaraði Már. „Það sem ger­ist milli funda er að hrær­ing­ar á gjald­eyr­is­mörkuðum minnka og nú eru skýr­ari merki um að spenna í hag­kerf­inu sé að slakna.“

Már sagði að al­mennt gilti að óvissa í stjórn­mál­um gæti haft þríþætt­ar af­leiðing­ar. Í fyrsta lagi dragi hún úr eft­ir­spurn í hag­kerf­inu sem renn­ir stoðum und­ir vaxta­lækk­un. Í öðru lagi geti hún leitt til þess að fjár­magn streymi úr land­inu sem hafi áhrif á gengið og geti kraf­ist vaxta­hækk­un­ar. Það hafi hins veg­ar ekki gerst. Í þriðja lagi geti verið að áhersl­ur í hag­stjórn breyt­ist. 

„Við höf­um ekki ástæðu til að ganga út frá því, það virðist vera sátt um ábyrga rík­is­fjár­mála­stefnu. Breyt­ing­ar á henni yrðu meiri­hátt­ar tíðindi og þá tækj­um við á því.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK