Vaxtalækkun þvert á spár

Útlit er fyrir að verð á húsnæði muni hækka minna …
Útlit er fyrir að verð á húsnæði muni hækka minna á næstunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig var þvert á opinberar spár. Skrefið er hins vegar mjög jákvætt í átt að lægri vöxtum, segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins í pistli á vef samtakanna.

Hefur nefndin nú lækkað stýrivexti bankans um 5,75% niður í 4,25% eða um 1,5 prósentur síðan í ágúst á síðastliðnu ári eða frá því að meginvextir bankans stóðu hæst í núverandi efnahagsuppsveiflu.

Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

„Hefur vaxtalækkunin í morgun haft umtalsverð áhrif á innlendan fjármálamarkað þar sem vextir hafa lækkað, sérstaklega óverðtryggðir, og hlutabréfaverð hækkað. Bera viðbrögðin þess merki að ákvörðunin hafi komið á óvart,“ segir Ingólfur.

Vaxtalækkunin í morgun er gerð með þeim rökum að verðbólgan hefur hjaðnað síðustu mánuði og mælist nú 1,4%. Einnig eru vísbendingar um að hægt hafi á hagvextinum og að það dragi nú úr spennu í þjóðarbúskapnum. Verðbólguvæntingar eru í samræmi við verðbólgumarkmiðið og sveiflur í gengi krónunnar hafa haft lítil áhrif á þær.

„Almennt kveður hér við viðlíka tón í yfirlýsingu peningastefnunefndar undanfarna mánuði varðandi næstu skref. Er framsýn leiðsögn hlutlaus og segir nefndin að aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum muni ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn. Framsýn leiðsögn í yfirlýsingum nefndarinnar hefur hins vegar undanfarið ekki verið haldgóð vísbending um næstu skref nefndarinnar. Þannig að þrátt fyrir hinn hlutlausa tón eru góðar líkur á frekari lækkun stýrivaxta á næstu misserum.

Pólitísk óvissa hefur áhrif

Ljóst er að óvissa á hinu pólitíska sviði, í kjaramálum og í gengismálum er mikil um þessar mundir. Allir þessir þættir munu hafa áhrif á það hversu mikið og hratt peningastefnunefndin mun geta lækkað stýrivexti á næstunni. Raunstýrivextir bankans, metnir út frá mun á núverandi stýrivöxtum og verðbólgu, eru enn talsvert háir og aðhaldið þannig nokkuð.

Ætti að vera svigrúm til að lækka vexti frekar á næstunni

Ef fram fer sem horfir og það dregur úr spennunni á næstunni er því svigrúm til að lækka stýrivexti bankans frekar. Veikist gengi krónunnar hins vegar með þeim afleiðingum að verðbólgan aukist og verbólguvæntingar hækki kann það að setja strik í reikninginn. Aðrir þættir sem hafa verið að drífa verðbólguna undanfarið og þá sérstaklega mikil hækkun húsnæðisverðs kann að vega þar sterkt á móti en líkur eru á því að verð húsnæðis muni hækka minna á næstunni en verið hefur og hefur sú þróun raunar þegar hafist,“ segir Ingólfur enn fremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK