Segja má að Ísland hafi unnið stóra vinninginn þegar miklar launahækkanir vegna kjarasamninga skiluðu sér ekki út í verðlagið en ólíklegt er að það verði jafnheppið aftur. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.
Þar er rakið að árið 2015 hafi litast talsvert af kjaradeilum á íslenskum vinnumarkaði. Samið hafi verið um launahækkanir sem hafi verið vel umfram spár um framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þvert á væntingar flestra um að verðbólguskot fylgdi í kjölfarið hefði kaupmáttur aukist til muna.
„Ef laun hækka meira en það sem samsvarar verðmætaaukningu, eða framleiðni, þá þýðir það að launakostnaður á framleidda einingu hækkar – það er dýrara að framleiða eina einingu en áður að öðru óbreyttu. Í þessu samhengi er gjarnan talað um launaverðbólgu en hún leiðir nær alltaf til hækkunar verðlags.“
Rifjaðar eru upp kjaraviðræðurnar 2011 en þá var samið um almenna launahækkun upp á 11,4% fyrir samningstímabilið, sem var þrjú ár. Í kjölfarið tók verðbólga að stíga á ný, eftir örstutt stopp undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, og var komin yfir 6% í ársbyrjun 2012. Nú hefur kaupmáttur hins vegar vaxið um 19% frá janúar 2015. Ef húsnæðisliðurinn, sem undanfarið hefur drifið verðbólguna áfram, er undanskilinn hefur kaupmáttur launa aukist um 27% frá ársbyrjun 2015.
Fyrir þessu nefnir greiningardeildin fimm ástæður:
„Það mætti segja að Íslendingar hafi unnið stóra vinninginn; launahækkanirnar hafa ekki skilað sér út í verðlagið, atvinnuþátttakan hefur sjaldan verið meiri og á sama tíma hafa vextir lækkað. Það þýðir þó ekki að hægt sé að endurtaka leikinn, enda voru aðstæður um margt óvenjulegar og fleiri þættir en íslensk ákveðni er lögðu hönd á plóg og hlupu undir bagga með innlendum fyrirtækjum þegar mest á reyndi.“
Enn fremur segir að ekki sé hægt að reiða sig á áframhaldandi styrkingu krónunnar þar sem mesti vöxturinn í ferðaþjónustu sé líklega liðinn. Launahækkanir undanfarinna ára hafi gert það að verkum að laun á Íslandi séu með því allra hæsta sem gerist.
„Á sama tíma er framleiðni hér á landi áþekk meðaltali OECD-landanna, sem grefur verulega undan samkeppnishæfni landsins. Verði hækkun launakostnaðar langt umfram framleiðnivöxt verður eitthvað undan að gefa, sem í íslenskri hagsögu hefur yfirleitt þýtt gengisfall með tilheyrandi verðbólguskoti.“