Tókust á um fasteignamarkaðinn

Ljósmynd/Aðsend

Stjórnmálaflokkarnir eru ekki á einu málum um hvernig eigi að glíma við hækkandi fasteignaverð. Sumir leggja meiri áherslu á aukið framboð en aðrir á sértæk úrræði.

Fulltrúar stærstu flokkanna samkvæmt nýlegum könnunum tóku þátt í pallborðsumræðum á hádegisfundi sem Félag viðskipta- og hagfræðinga efndi til. Var yf­ir­skrift fund­ar­ins Er grunn­ur fast­eigna­markaðarin stöðugur? 

Fyrstur til máls tók Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra frá hönd Viðreisnar. Hann sagði að stærsta vandamálið væri lóðaframboð sem væri að mestu í höndum sveitarfélaga. Auk þess væri búið að tala um í nærri áratug að hér vantaði litlar hagkvæmar íbúðir en ekkert hefði gerst í þeim efnum. Sagði hann að deiliskipulag sveitarfélaga þyrfti að gera ráð fyrir þess konar íbúðum. 

Næstur til máls tók Ágúst Ólafur Ágústsson sem leiðir lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður. Hann sagði að fleiri úrræði stæðu til boða, til að mynda hefði Samfylkingin lagt áherslu á að auka framboð almennra íbúða með stofnframlögum. Auk þess hefði vaxtabótakerfið beðið hnekki og úr því þyrfti að bæta. Þá talaði Ágúst um að framleiðini í byggingariðnaði væri talsvert lægri í en í Noregi, um 30% munur væri þar á. 

Manngerður vandi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra leiðir lista sjálfstæðismanna í Reykjavík Norður. Hann hóf mál sitt á að tala um mikilvægi stöðugleika í efnahagslífinu, hann væri forsenda fyrir heilbrigðum fasteignamarkaði. Guðlaugur nefndi að 30% af byggingarkostnaði rynni í vasa opinberra aðila og að það væri manngerður vandi. Þá nefni hann mikilvægi þess að hafa félagslegt húsnæði til staðar í kerfinu. 

Ólafur Ísleifsson, oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, sagði að flokkurinn legði áherslu á húsnæðisöryggi. Leita þyrfti víðtækari lausna, til dæmis að auka hlut félagslegrar kaupleigu. Hann sagði að fíllinn í postulínsbúðinni væri verðtryggingin og háir vextir, þessir þættir skildi okkur frá samanburðarlöndum. 

Snýst ekki bara um kaupmátt

Halla Gunnarsdóttir skipar fjórða sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík norður. Hún sagði að myndin væri stærri en fram hefði komið í orðræðu hinna fulltrúanna. Fasteignamarkaðurinn snerist ekki aðeins um kaupmátt heldur hvernig samfélag við vildum byggja og hvernig mannlíf við vildum hafa. Þá sagði hún að séreignarleiðin fæli í sér fyrirgreiðslu til þeirra sem ættu mest. 

Síðastur tók til máls Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann sagði að afla þyrfti betri upplýsinga um stöðu fasteignamarkaðarins vegna þess að mikið misræmi væri milli greininga stofnana um húsnæðisþörf. Hann var ekki á því að sveitarfélög ættu að gefa lóðir, slíkt fyrirkomulag hefði áður verið við lýði og þá hefðu sveitarfélög búið við bágan hag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK