Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að lífeyrissjóðirnir séu í of þægilegri stöðu vegna lögbundinnar 3,5% ávöxtunarkröfu. Hann vill sjá sterkari hvata til þess að fjármagnið sem lífeyrissjóðirnir búa yfir nýtist til nýsköpunar.
Þetta kom fram í ræðu Sigmundar Davíðs sem tók þátt í pallborðsumræðum á Tækni- og hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins í gær. Helsta umræðuefnið voru nýsköpunarmál en Sigmundur sagðist telja að í þeim efnum væri ágreiningur stjórnmálamanna ekki vandinn heldur mótbyr frá kerfinu.
„Það þarf að brjótast í gegnum kerfið. Ein hindrunin er hvernig menn reikna útgjöld og tekjur ríkisins en þar er ekkert svigrúm fyrir langtímaáhrif eða heildaráhrif heldur eingöngu það sem má reikna með vissu. Nýsköpun fylgir mikil óvissa en við vitum að á heildina litið skilar nýsköpun miklum ábata.“
Sigmundur sagði að þó að erlendir fjárfestar og erlent starfsfólk væru mikilvæg fyrir nýsköpun væri enn mikið fjármagn á hér á landi sem nýta mætti í nýsköpun.
„Til dæmis hjá lífeyrissjóðunum sem hafa haft það of þægilegt með tryggðri 3,5% ávöxtun. Ef ríkið væri ekki að halda þeim uppi þyrftu þeir að standa undir sér með öðrum hætti. Ég myndi vilja sjá sterkari hvata til þess að þetta fjármagn nýtist í nýsköpun.“