Ekki er farið að bera á áhættu í fjármálakerfinu í þeim mæli að jafna megi við umtalsverða kerfisáhættu, enda er fjármálauppsveifla tiltölulega nýlega hafin þótt yfirstandandi hagvaxtarskeið sé orðið langt.
Í sjónmáli eru þó áhættuþættir sem gefa þarf gætur svo fyrirbyggja megi að kerfisáhætta myndist í framtíðinni.
Hagvöxtur á Íslandi hefur staðið í u.þ.b. sjö ár samfleytt og horfur eru á hagvexti í nokkur ár til viðbótar. Hið langa hagvaxtarskeið hefur gefið heimilum, fyrirtækjum, hinu opinbera og fjármálakerfinu svigrúm til þess að lækka skuldir sínar í kjölfar fjármálakreppu og efnahagssamdráttar.
Efnahagur allra geira þjóðarbúsins og staða þess gagnvart útlöndum hafa því styrkst, en lækkun skulda hefur um leið haldið aftur af vextinum og dregið hagvaxtarskeiðið og sérstaklega upphaf nýrrar fjármálauppsveiflu á langinn.
Ósennilegt virðist að skuldir lækki frekar enda vaxa útlán nú ívið hraðar en nafnvirði landsframleiðslunnar. Vöxtur útlána er þó innan hóflegra marka og langtum hægari en árin fyrir fjármálaáfallið 2008.
„Eigi að síður er ástæða til að hafa gætur á útlánavextinum, því hann er nokkuð bundinn við geira þar sem bakslag gæti átt sér stað, t.d. ferðaþjónustu ásamt tengdum greinum og byggingariðnað.
Þessir tveir geirar eru tengdir innbyrðis vegna áhrifa vaxtar ferðaþjónustu á fasteignamarkaðinn,“ segir í nýútkomnu riti Seðlabanka Íslands, Fjármálastöðugleika. Ritið er gefið út tvisvar á ári og kom út í morgun.
Frá því ritið Fjármálastöðugleiki kom síðast út í apríl hefur vöxtur útlána til fyrirtækja í þessum greinum sótt í sig veðrið.
Það er þó mat Seðlabankans að lánveitingar til fjárfestingar í ferðaþjónustutengdum greinum og til fasteignakaupa hafi enn ekki náð hættumörkum.
Annar af tveimur áhættuþáttum sem raskað gætu jafnvægi í fjármálakerfinu í framtíðinni tengist hugsanlegu bakslagi í ferðaþjónustu.
„Vöxturinn undanfarin ár hefur verið ævintýralegur og er ferðaþjónusta nú orðin einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar.
Hlutfall útlána sem veitt hefur verið til greinarinnar er orðið svipað útlánum til sjávarútvegs. Hröðum vexti fylgir ávallt áhætta og áframhaldandi vöxtur, einkum ef hann verður útlánadrifinn, mun leiða til aukinnar samþjöppunar áhættu í lánasafni bankanna.
Áhættan sem fylgir áframhaldandi örum útlánavexti til greinarinnar tengist einnig því að áföll sem hún gæti orðið fyrir, t.d. af völdum náttúruhamfara eða breyttra markaðsaðstæðna, væru um leið áfall fyrir þjóðarbúið í heild þar sem þau hefðu áhrif á gjaldeyristekjur og gengi krónunnar.
Smitáhrifin myndu því ná langt út fyrir greinina sjálfa. Tengsl ferðaþjónustunnar við fasteignamarkaðinn eru einnig til þess fallin að magna smitáhrif bakslags í ferðaþjónustu,“ segir í inngangskafla ritsins.
Raunverð fasteigna hefur náð nýju sögulegu hámarki, sem er áhættuþáttur í sjálfu sér, en hefur aukna áhættu í för með sér vegna þess að bakslag í ferðaþjónustu gæti leitt til þess að íbúðir sem undanfarin ár hafa verið nýttar til ferðaþjónustu færu á markað með tilheyrandi áhrifum á fasteignaverð.
„Þótt áhættumerki séu til staðar bendir margt til þess að aðlögun fasteignamarkaðarins að jafnvægi geti orðið tiltölulega mjúk, a.m.k. í samanburði við aðlögunina í kjölfar fjármála- og gjaldeyriskreppunnar haustið 2008.
Ástæða þess er að verðhækkun fasteigna hefur ekki verið drifin af útlánvexti og að efnahagur heimila, fyrirtækja og fjármálafyrirtækja er mun sterkari en á fyrra tímabilinu.
Bæði eiginfjárstaða og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka er sterk. Einnig er erlend skuldastaða þjóðarbúsins hagstæð og enn er afgangur af viðskiptum við útlönd, þótt dregið hafi úr honum, en ekki mikill halli eins og á fyrrgreinda tímabilinu.
Líkur á að erfiðleikar í ferðaþjónustu og aðlögun á fasteignamarkaði raski stöðugleika fjármálakerfisins eru því jafnframt minni. Það myndi draga enn frekar úr áhættu að aðlögun á húsnæðismarkaði dragist ekki um of á langinn.
Þegar er farið að draga úr árshækkun íbúðaverðs, bæði vegna þess að verðlag íbúða er orðið svo hátt að það er farið að dempa eftirspurnina en einnig vegna þess að hið háa fasteignaverð hefur myndað ríkan hvata til að auka framboðið eftir tímabil framboðstregðu í upphafi uppsveiflu,“ segir enn fremur í riti Seðlabanka Íslands.