Samdráttur í sölu verslana Haga

Bónus.
Bónus. mbl.is/Hjörtur

Sala í matvöruverslunum í eigu Haga dróst saman um 7,1%, í krónum talið, á öðrum ársfjórðungi þessa árs, miðað við sama tímabil í fyrra. Þegar tekið er tillit til þeirra matvöruverslana sem Hagar lögðu niður, frá því á fyrra ári, nemur sölusamdrátturinn 4,8% í krónum talið. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Haga en þar kemur fram að verðhjöðnun og breytt samkeppnisumhverfi hafi haft áhrif á rekstur Haga á tímabilinu.

Hagar högnuðust um einn og hálfan milljarð á öðrum ársfjórðungi og seldu vörur fyrir 37,2 milljarða króna. Á sama tímabili í fyrra var salan 40,7 milljarðar króna.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam tæplega 2,4 milljörðum króna. Handbært fé nam tæpum, 2,2 milljörðum króna og eigið fé 18,6 milljörðum.

Vörusalan 5% minni

Vörusala verslana Haga var 4,9% minni en á sama tímabili í fyrra, ef frá er talin aflögð starfsemi. Fyrirtækið hefur frá fyrra ári lokað verslun Debenhams í Smáralind, Korpu-outleti, Útilífi Glæsibæ, matvöruhluta Hagkaups Holtagörðum, efri hæð Hagkaups Kringlunni og tískuverslunum í Smáralind og Kringlu.

Fram kemur að launakostnaður hafi hækkað um 6,5% á milli ára, sem að mestu megi rekja til kjarasamningshækkana, en annar rekstrarkostnaður hafi lækkað um 8,9%.

Verðhjöðnun og Costco

Fram kemur í tilkynningunni að breytt samkeppnisumhverfi hafi haft áhrif á rekstur félagsins en í því samhengi má benda á að Costco opnaði á miðjum öðrum ársfjórðungi. Fram kemur að áhrifa breytts rekstrarumhverfis muni gæta út rekstrarárið. Fram kemur einnig að verðhjöðnun hafi haft mikil áhrif á rekstur félagsins undanfarna sex mánuði. Hún sé til komin vegna mikillar styrkingar krónunnar, betri innkaupa og lægra innkaupsverðs. „Þá er ljóst að ef borin er saman framlegð á milli ára að styrking krónunnar og betri innkaupsverð hafa skilað sér í lægra vöruverði til hagsbóta fyrir viðskiptavini félagsins.“

Í tilkynningunni er minnt á að Samkeppniseftirlitið hafi ekki heimilað kaup Haga á Lyfju en að fyrirtækið telji að rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafi verið „ófullburða“. Þá sé niðurstöðu eftirlitsins, er varðar kaup á Olíuverzlun Íslands, Olís, beðið. Hennar sé að vænta í lok febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka